Þrátt fyrir Hannes Hólmsteinn Gissurarson, fyrrverandi prófessor og Sjálfstæðismaður, hafi verið meðal þeirra fyrstu úr sínum flokki til að lýsa yfir stuðningi við forsetaframboð Katrínar Jakobsdóttur, þá virðist hann glaður una niðurstöðu kosninganna. Hann rifjar upp að hann hafi setið með nýjum forseta, Höllu Tómasdóttur, í bankaráði Seðlabankans þar sem hún var varamaður. Bæði voru þau tilnefnd í ráðið af sama flokknum, Sjálfstæðisflokknum.
„Ég held, að sú skýring á fylgi Höllu, að hún sé ekki-Katrín, sé ekki nema að litlu leyti rétt. Hún fékk 27,9% atkvæða 2016 og 34,1% atkvæða núna. Munurinn er ekki nema 6,2%. Þar er hópurinn, sem vildi ekki Katrínu, en líklega eru margir fleiri þar, til dæmis konur, sem líta á hana sem fyrirmynd, sjálfstæðismenn, sem sáu engan annan kost o. sv. frv. (Halla sat með mér í bankaráði Seðlabankans sem varamaður, frá sama flokki og ég.) En það er samt kaldhæðnislegt, ef vinstri menn hafa kosið Höllu, sem er augljóslega mið-hægrimaður, til að geta hafnað Katrínu, sem er svo sannarlega vinstri maður og leyndi því hvergi í kosningabarátunni,“ skrifar Hannes á Facebook.