Þó Hannes Hólmsteinn Gissurarson, fyrrverandi prófessor og Sjálfstæðismaður, virðist ekki vera böggum hildar yfir niðurstöðu forsetakosninganna, líkt og Samstöðin greindi frá fyrr í dag, þá verður það sama ekki sagt um alla flokksbræður hans.
Raunar virðast sumir Sjálfstæðismenn allt annað en sáttir með það að flokkurinn hafi verið helsti bakhjarl Katrínar í kosningabaráttunni. Það má gefa sér það að kosningaósigur hennar hafi ekki bætt úr skák. Í það minnsta virðast tveir innmúraðir Sjálfstæðismenn vera fokillir yfir, ef marka má athugasemdir sem þeir skrifa við færslu Hannesar í dag.
Annar þeirra Stefán Einar Stefánsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, skrifar: „Það kann að vera skondið að vinstri menn hafi kosið mið-hægri manneskju í þetta embætti. En það er hins vegar sorglegt að sjá hversu margir málsmetandi menn létu sér detta í hug að styðja sósíalista í embættið, svo ekki sé talað um að leggjast á árarnar opinberlega fyrir því að viðkomandi næði kjöri. Þetta mun lengi í minnum haft.“
Tilraun Björns Bjarnarsonar, fyrrverandi ráðherra, til að róa menn virðist hafa þveröfug áhrif en Björn skrifar: „Það eitthvað undarlegt við hneykslun yfir því að einhverjir sjálfstæðismenn styðji Katrín Jakobsdóttir (þf) til setu í ópólitísku embætti eftir að hafa staðið að baki hennar sem forsætisráðherra í sjö ár. Hafa þeir sem nú hneykslast verið andvígir stjórnarsamstarfinu í sjö ár?“
Því svarar Stefán Einar svo: „Embættið er að sjálfsögðu ekki ópólitískt og hefði aldrei orðið það í höndum Katrínar Jakobsdóttur. Fjölmargir sjálfstæðismenn hafa einnig verið mjög gagnrýnir á stjórnarsamstarfið við VG. Það sést best á því að stór hópur hefur kosið með fótunum, er einfaldlega orðinn afhuga flokknum. Að málsmetandi Sjálfstæðismenn hafi svo ætlað að launa Katrínu það óeldi sem boðið hefur verið upp á með því að gera hana að þjóðhöfðingja er hrein sturlun. Sennilega hluti af þeim djúpstæða vanda sem floķkurinn finnur sig í.“
Stefán Einar er ekki sá eini sem talar á þessum nótum í athugasemdum hjá Hannesi. Jón Steinar Gunnlaugsson, Sjálfstæðismaður og fyrrverandi hæstaréttardómari, tekur í sama streng. „Þú varst með þeim fyrstu sem lýstu opinberlega stuðningi við Katrínu. Þú hefur líklega viljað þakka henni fyrir fyrirvaralaust bann á hvalveiðum sem mun leiða til stórtjóns Hvals hf. á kostnað skattgreiðenda, andstöðuna gegn virkjunum í landinu, andstöðuna gegn fyrirtækjum í eigu einstaklinga, t.d. í heilbrigðiskerfinu, Rýmkun á heimild til fóstureyðinga alveg fram að fæðingu barna, aðförina gegn Geir Haarde? Bjarni fékk nú að verða forsætisráðherra með baktjaldamakki við Katrínu, sem guðfaðir þinn Davíð studdi. Fyrir það verður Katrínu seint fullþakkað!,“ segir Jón Steinar.