Flest vitum við að forseti Íslands getur neitað að skrifa undir lög og þannig vísað þeim í þjóðaratkvæðagreiðslu. Óneitanlega eru talsvert færri sem vita að forseti Íslands getur veitt undanþágu frá lögum. Helga Vala Helgadóttir, lögmaður og fyrrverandi þingkona, bendir á að þetta standi þó skýrum stöfum í stjórnarskránni.
Hún virðist þó enginn sérstakur talsmaður þess að forsetinn beiti þessu ákvæði oftar, heldur sé þetta til marks um að nauðsynlegt sé að endurskoða stjórnarskránna. Líkt og reyndar stóð til áður en stjórnmálastéttin stöðvaði vilja þjóðarinnar. „Þá hefur Landskjörstjórn metið 11 framboð gild svo lýðræðisveislan getur hafist fyrir alvöru. Vitanlega eru línur örlítið að skýrast með efstu frambjóðendur miðað við kannanir en það getur samt allt gerst enda höfum við í raun sáralítið heyrt frá þeim sem eru að gefa kost á sér í þetta mikilvæga embætti,“ segir Helga Vala og heldur áfram:
„Það væri til fyrirmyndar ef stjórnmálastéttinni væri meira umhugað um að gera nauðsynlegar breytingar á forsetakaflanum en að standa vörð um nýtingu fárra á auðlind þjóðarinnar. Þá værum við til dæmis með það alveg skýrt hvaða völd forsetinn hefur. Ég hef fengið allskonar spurningar á undanförnum vikum, allt frá því hvort hann geti einn og sér rofið þing, hvort þingið geti sett hann af, hvort hann geti að eigin frumkvæði vikið manni úr embætti sem hann hefur sett í embætti og hvort það sé rétt að hann geti ákveðið að veita undanþágu frá lögum, samkvæmt reglum sem farið hefur verið eftir hingað til. Nú sagði ég ósatt – það hvarflar ekki að nokkrum manni að þetta síðastnefnda sé í stjórnarskrá, en það er engu að síður þannig.“