Bridgesamband Íslands og Skáksamband Íslands biðla til stjórnvalda að hugaríþróttir fái inni í Þjóðarhöllinni.
Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu sambandanna tveggja.
Þar er skorað á Ásmund Einar Daðason menntamálaráðherra og Einar Þorsteinsson borgarstjóra að ýta undir að bridsarar og skákmenn geti undir einum hatti hugaríþrótta fengið sameiginlega aðstöðu í Þjóðarhöllinni Laugardal.
„Ljóst er að skák og bridge njóta mikill vinsælda á Íslandi sem og alþjóðlega,“ segir í bréfinu og er rætt um að barna- og unglinga sé nú í forgrunni innan beggja sambanda.
Aðstöðu vanti til að sinna unga fólkinu. Samnýting húsnæðis henti vel. Óskað er eftir áframhaldandi viðræðum við ráðuneyti og borg svo þetta geti orðið að veruleika.
Ingibjörg S. Guðmundsdóttir, fyrrum skólameistari Kvennaskólans og formaður Félags skólameistara, tekur undir þessar hugmyndir. Hún segir skemmtilegt að fylgjast með uppgangi í skák og bridge. Reynslan segi henni að fjölmörg ungmenni finni sig í hugaríþróttum en ekki í öðru starfi.
Um bridge segir Ingibjörg, sem sjálf þekkir til íþróttarinnar, að spilið auki samskiptahæfni og félagsþroska og efli námsárangur, einkum í raungreinum.
Sömu sögu er að segja um skák eftir því sem fram kemur hjá Skáksambandinu.