Katrín Jakobsdóttir fer á svokölluð biðlaun í sex mánuði þegar hún hættir sem forsætisráðherra eftir helgi. Hún verður því á launum í kosningabaráttunni öfugt við aðra opinbera starfsmenn sem hafa boðið sig fram, svo sem Helgu Þórisdóttur forstjóra Persónuverndar og Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur leikkonu hjá Þjóðleikhúsinu. Þær eru í ólaunuðu leyfi meðan þær sinna kosningabaráttunni.
Laun forsætisráðherra eru í dag 2.680.312 kr. Biðlaun Katrínar verða því rétt rúmar 16 m.kr. Ef hún nær kjöri sem forseti mun hún taka við 1. ágúst næstkomandi og fá þá 2.985.000 kr. í laun á mánuði og allskyns fríðindi, sem eru meira að segja umfram þau sem forsætisráðherra nýtur.
Þegar upplýsingar úr skattskrám voru birtar í fyrra kom fram að Katrín hafði haft fjármagnstekjur upp á um 3 m.kr. á árinu 2022 og vakti athygli að fjármagnstekjur Katrínar voru hærri en annarra ráðherra. Líka Guðrúnar Hafsteinsdóttur og Bjarna Benediktssonar, sem bæði tilheyra miklum eignafjölskyldum. Ef við miðum við 7,5% ávöxtun eða vexti má ætla að Katrín eigi um 40 m.kr. eignir sem bera fjármagnstekjur. Hún gæti því fjármagnað kosningabaráttu án aðstoðar.
Katrín hefur haft tvær persónulegar aðstoðarkonur í forsætisráðuneytinu, Bergþóru Benediktsdóttur og Láru Björg Björnsdóttur. Þar sem þær eru persónlega ráðnar er ólíklegt að þær muni verða ráðnar af nýjum forsætisráðherra. Þær Bergþóra og Lára fara því á þriggja mánaða biðlaun. Laun aðstoðarfólks ráðherra er yfir 1,5 m.kr. á mánuði, svo aðstoðarkonurnar tvær fá yfir 9 m.kr. í biðlaun saman.
Nú eru þær auðvitað frjálsar manneskjur, Bergþóra og Lára, og eru ekki bundnar af því að fara með Katrínu í kosningabaráttu í forsetakosningum. Þær sáu hins vegar um kynningar á framboði hennar á föstudaginn, en þá sem starfsmenn ráðuneytisins. En það kæmi líklega engum á óvart þótt þær tvær myndu starfa við kosningabaráttuna, kannski í von um að fylgja svo Katrínu yfir á skrifstofu forseta ef hún nær kjöri.
Á myndinni er Katrín með aðstoðarkonum sínum, Láru vinstra megin og Bergþóru til hægri.