„Nú er Katrín komin í framboð til forseta en þvert oní það sem ég trúði staðfastlega, þá ætla hún og VG að kyngja því að spilltasti stjórnmálamaður seinni tíma verði forsætisráðherra — sigri hrósandi!“
Þetta segir Illugi Jökulsson fjölmiðlamaður í nýbirtum pistli um tíðindi dagsins. Illugi segir að með því að færa Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðuneytið, þá sýni Katrín að persónulegur metnaður hennar hafi yfirskyggt allan pólitískan sóma. Illugi segist hafa í fyrstu verið jákvæður í garð forsetaframboðs Katrínar.
„Ástæðan var ekki sú að mér þætti sérstök ástæða til að verðlauna hana fyrir að hafa haldið Sjálfstæðisflokknum við völd síðustu sjö ár, né heldur ömurleg frammistaða ríkisstjórnar hennar í velferðarmálum örykja og eldra fólks eða heilbrigðismálum, og mér fannst ekkert endilega að hún ætti skilið þægilega innivinnu á góðum launum fyrir að hafa látið líðast spillingu og vanhæfni og fúsk og sívaxandi auðsöfnun sægreifanna og hvað þá hrottalega meðferð stjórnarinnar á nauðstöddu fólki í leit að betra lífi. Nei, ástæðan fyrir því að ég vildi endilega að hún byði sig fram var sú að ég taldi fullvíst að þar með væri þessi ömurlega ríkisstjórn sjálfdauð um leið,“ segir Illugi.
Svo reyndist ekki. Illugi kennir oftrú sinni á Vg um að þessi spádómur hans rættist ekki. „Sjálfstæðismenn gætu undir engum kringumstæðum sætt sig við að sitja í stjórn undir forsæti annars en þeirra einkavinkonu og mundu gera kröfu um forsætisráðherrastólinn fyrir Bjarna Benediktsson. En þótt kok Katrínar og VG hafi reynst vera afar vítt og sleipt síðustu sjö árin, þá væru samt til takmörk. Og þann stóra skít gætu þau ekki með nokkru móti gleypt. Eftir allt sem á undan er gengið og Bjarni hefur „afrekað“. Því hlyti stjórnin að víkja og þó fyrr hefði verið,“ skrifar Illugi en pistil hans má lesa í heild sinni hér.