Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, vænir Kolbrúnu Þórdísi Reykfjörð Gylfadóttur um ósannsögli vegna umræðu sem hefur skapast um sölu TM til Landsbankans og ábyrgð á henni.
Í viðtali við Rúv segir Kristrún að bein samskipti Þórdísar við bankann sem hafi orðið upplýst um séu í trássi við fyrri yfirlýsingar Þórdísar þegar hún gegndi stöðu fjármálaráðherra.
Um ræðir yfirlýsingar um armslengd frá bankanum. Hún vill að fjárlaganefnd taki málið til umfjöllunar en nefndin hefur óskað eftir upplýsingum um samskipti Bankasýslunnar, ráðherra, bankaráðsins og bankastjóra.
„Að mínu mati þá virðast bæði ráðherra og Bankasýslan orðin svolítið margsaga í þessu máli og upplýsingar smám saman að koma fram. Ég nefni það sérstaklega að fjármálaráðherra fyrrverandi og stjórnarmeirihlutinn höfðu fyrst haldið því ríkulega til haga að vegna armslengdar mættu engin bein samskipti vera á milli bankans og ráðherra,“ segir Kristrún.
Í viðtali við Tryggva Pálsson stjórnarformann Bankasýslu ríkisins á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun kom fram að fyrrverandi fjármálaráðherra hefði átt fund með bankastjóra Landsbankans og komið skoðun sinn á framfæri. Það rímar samkvæmt Rúv einnig við það sem áður kom fram í Heimildinni að ráðherra hefði átt þannig fund sem var fyrir 15. mars þegar bindandi kauptilboð í TM var gert og Bankasýslunni voru sendar upplýsingar.
Bankasýslan hefur skipt út öllu bankaráði Landsbankans vegna óánægju með hvernig staðið var að kauptilboðinu í TM.
Sjá frétt rúv hér: Bein samskipti við bankann í trássi við fyrri yfirlýsingar ráðherra – RÚV.is (ruv.is)