Lagt til að úreltum 153 ára gömlum lögum um þungunarrof verði breytt í Þýskalandi – Kristilegir stjórnmálamenn og öfgahægrimenn sameinast í andstöðu

Heimla ætti þungunarrof í Þýskalandi á fyrstu 12 vikum þungunar. Þetta er niðurstaða og ráðleggingar nefndar sem ríkisstjórnin skipaði. Stjórnarandstæðingar úr hópi þjóðernissinnaða öfgahægrimanna leggjast hart gegn breytingum og vilja fremur herða löggjöfina, meðal annars með þeim rökum að ef fæðingartíðni þýskra kvenna ykist verði minni þörf á innflytjendum í þýsku samfélagi. 

Þungunarrof er ólöglegt í Þýskalandi nema sérstakar ástæður komi til, þar á meðal ef líf þungaðra kvenna er í hættu vegna meðgöngunnar, og einnig ef konum hefur verið nauðgað. Sækja þarf um heimild fyrir þungunarrofi hverju sinni hjá sérstakri ríkisskipaðri nefnd. Þó ber þess að geta að sjaldnast er konum refsað fyrir að fara í þungunarrof. 

Aktívistar hafa fagnað úttekt nefndarinnar enda segja þau lögin úrelt og skaðleg konum. Jafnvel þegar þungunarrof er heimilað verður það að gerast á fyrstu þremur mánuðum meðgöngu, nema því aðeins að mjög knýjandi ástæður séu til. 

Umrædd nefnd um sjálfsákvörðunarrétt kvenna er skipuð sérfræðingum, sem allar eru konur. Hún var skipuð af ríkisstjórn Olafs Scholz kanslara en samkomulag var í samsteypustjórn hans um að breyta ætti hinum 153 ára lögum sem um ræðir. 

Stjórnarandstöðuþingmenn, einkum úr armi hinna íhaldssömu Kristilegu demókrata og öfgahægriflokksins Valkostur fyrir Þýskalands (AfD), eru hins vegar andsnúnir hvers kyns breytingum á lögunum. Segja þeir að lögin eins og þau nú eru njóti víðtæks stuðnings og að þau veiti ófæddum börnum nauðsynlega vernd. Þá sé þungungarrof, þrátt fyrir að vera ólöglegt, í boði og afskaplega óalgengt sé að aðgerðirnar leiði til lögsókna. Hóta stjórnarandstöðumenn að fara með lagabreytingarnar fyrir stjórnlagadómstól.

Raunar er það svo að þingmenn AfD vilja þrengja löggjöfina enn frekar með þeim rökum að of mörg þungunarrof séu framkvæmd nú þegar. Ein röksemda flokksins, sem er popúlískur öfgaþjóðernisflokkur, er sú að ef fæðingartíðni þýskra kvenna væri hærri, þá væri minni þörf á innflytjendum í Þýsklandi. 

Aktívistar sem barist hafa fyrir því að þungunarrof verði heimilt samkvæmt lögum hafa bent á að sökum þess að þungunarrof sé samkvæmt lögum brot á hegningarlögum gæti það vel þýtt að ríkisstjórnir Þýskalands í framtíðinni myndu krefjast þess að þeim ákvæðum yrði framfylgt. Í ljósi þess að AfD hefur í skoðanakönnunum aukið fylgi sitt síðustu mánuði er hætt á slíku yfirvofandi, að mati aktívistanna. Þeir hafa bent á þróun í öðrum ríkjum, á borð við nágrannalandið Pólland og Bandaríkin sérstaklega, en í báðum tíkum hefur rétturinn til þungunarrofs orðið bitbein í stjórnmálum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí