„Þetta var rosalegt að sjá valdið hegða sér svona. Við erum að tala um friðsöm mótmæli og þá bregst löggan við með Að beita piparúða grimmt og sprauta í andlit mótmælenda. Sú valdbeiting var í engu samræmi við tilefnið,“ segir Sanna Magdalena Mörtudóttir borgarfulltrúi.
Sanna var í hópi mótmælenda í morgun við Skuggasund þar sem félagið Ísland-Palestína stóð fyrir mótmælum. Eftir að nokkrir mótmælendur lögðust í götuna á sama tíma og ráðherra dreif að á bílum sínum til ríkisstjórnarfundar beitti lögrglan piparúða á fjölda manns.
„Það fylgdi enginn rökstuðningur en þeir vildu að fólk færði sig til.“
Piparúðabrúsarnir voru meiri að umfangi en gengur og gerist að sögn Sönnu.
„Það var rosalegt að sjá fólkið allt rautt í framan en það barst hjálparhönd frá starfsfólki Þjóðleikhússins sem kom með G-mjólk sem borin var á þolendur til að hjálpa fólki.“
Að sögn Sönnu voru lögreglumennirnir einnig mjög harkalegir þegar þeir kipptu í mótmælendur.
„Ég er enn í sjokki vegna þess að mér fannst engin ástæða að bregðast svona við. Þetta var svo mikil harka,“ segir Sanna í samtali við Samstöðina.
Í frétt Vísis segir að 10 mótmælendur séu sárir eftir piparúðann og hafi einn lögreglumaður slasast eftir að ráðherrabíll ók á hann. Lögreglan segir að mótmælendur hafi ekki farið eftir fyrirmælum.