Hælisleitendur frá Venesúela hafa gefið út sameiginlega yfirlýsingu í gegnum Facebook-síðu samtakanna Refugees in Iceland, þar sem meðferð íslenskra stjórnvalda á þeim er fordæmd. Yfirlýsingin krefst réttlætis í málsmeðferð og sakar íslensk stjórnvöld um alvarlega mismunun og brot gegn alþjóðlegum sáttmálum, sem þau segja að snúist um pólitík meira en nokkurt annað.
Fyrst og fremst snýr yfirlýsingin að hinni svokölluðu non-refoulement principle, sem á íslensku hefur ekkert eitt heiti, en er það sem vísað er í þegar talað er um að það megi ekki vísa fólki aftur til landa þar sem líf þess eða frelsi kunni að vera í hættu. Hugtakið er þannig grundvallarhugmynd mannréttinda í margvíslegum alþjóðlegum lögum, samþykktum og sáttmálum.
Hópurinn sem ritar yfirlýsinguna heitir Venezuelans for Migratory Justice, sem mætti útleggjast sem Venesúelabúar fyrir réttlæti aðfluttra.
Hópurinn lýsir yfir miklum áhyggjum og óvissu sem skapast hafa vegna mikils fjölda umsókna um hæli sem hafi verið hafnað undanfarið á Íslandi og þrýsting sem þau eru undir að skrifa undir „sjálfviljugar“ heimferðir aftur til Venesúela.
Kona frá Venesúela skrifar athugasemd undir færslunni sem lýsir því ferli ágætlega:
„Venesúelabúar vilja ekki „fara heim sjálfviljugir“, við erum undir sálfræðilegum þrýstingi sem NEYÐIR okkur til að vera send aftur heim. Þeir segja við okkur: Ef þú skrifar ekki undir sjálfviljug, þá munum við færa málið yfir til lögreglu. Báðir valmöguleikarnir eru eins.“
Málsmeðferðin er einnig gagnrýnd harðlega í yfirlýsingunni og sögð brjóta gegn non-refoulement reglunni. „Okkur er haldið í landinu yfir langt tímabil (16 mánuðir fyrir fjölskyldur og 18 mánuðir fyrir einstaklinga), með því loforði að umsóknir okkar um hæli verði skoðaðar, til þess eins að fá þeim hafnað nokkrum klukkustundum áður en þessi tímabil renna út. Þá erum við neydd til að skrifa undir „sjálfviljugar“ heimsendingar.“
Að þessu loknu þurfi fólkið síðan að ganga í gegnum um það bil fimm mánaða langt tímabil til að skila þeim heim, sem hafi gríðarlega neikvæð áhrif á þeirra andlegu heilsu.
Óvissan og óreiðan hafi sérstaklega neikvæð áhrif á börnin þeirra, sem líði fyrir ástandið með ýmislegum svefntruflunum, kvíðaköstum, martröðum og almennri vanlíðan. Áhrifin á börnin eru líka önnur, segir í yfirlýsingunni. Þó þau hljóti menntun, að hluta til, eru þau einangruð frá almenna kerfinu og fá því ekki að njóta samvistar við íslensk börn, fá ekki tækifæri til að aðlagast samfélaginu og tungumálinu, sem yfirlýsingin segir vera mismunun.
Það er auðvitað vel þekkt staðreynd að því yngri sem börn eru því auðveldara er það fyrir þau að læra tungumál, siði og venjur af umhverfi sínu. Það hlýtur því að teljast mjög alvarlegt ef börnum þessa fólks er haldið frá slíku tækifæri í allt að eitt og hálft ár, eða jafnvel tvö, á meðan að málsmeðferð stendur.
Þá vill hópurinn taka fram að fólksflutningar frá Venesúela eru með þeim fjölmennustu í heiminum og telji þannig langtum fleira fólk á heimsvísu en flótti fólks frá Úkraínu eða Sýrlandi. Það sé ekki af ástæðulausu. Yfirvöld í Venesúela virði ekki stjórnarskrárbundin réttindi, réttarríki né sanngjarna málsmeðferð og margir hafi verið í lífshættu fyrir það eitt að gagnrýna yfirvöld upphátt.
Yfirlýsingunni lýkur með því að biðja allt fólk á Íslandi um stuðning. „Við trúum því og viljum vera hluti af lausninni og leitum einungis þess tækifæris til að sýna okkar harðduglega vinnuþrek og fagmennsku. Við vonumst til að vera viðurkennd sem einstaklingar.“ Venesúelabúar hafi flúið landið sitt í fyrsta skipti á ævinni til þess eins að „leita að betri framtíð fyrir börnin okkar, flýjandi kerfi sem hefur hrjáð og heldur áfram að hrjá fólkið okkar“.
Sjá má færsluna hér og margvíslegar reynslusögur hælisleitenda í athugasemdum undir henni: