Íslendingur að nafni Navid Nouri segir svo komið að honum sé ekki stætt að stunda akstur leigubíls, líkt og hann hefur gert að atvinnu í nokkur ár, vegna aukinna fordóma í samfélaginu. Navid er af persneskum uppruna en hefur íslenskt ríkisfang, á íslenska eiginkonu og íslensk börn. Eiginkona Navids, Nanna Hlín Halldórsdóttir gerði stöðuna að umtalsefni í færslu á facebook síðu sinni í gær þar sem hún færir fram skoðun sína umbúðalaust.
„Það er skömm að Eyjólfi Ármannsyni innviðaráðherra sem er með útlendingafordóma í beinni útsendingu hvað varðar málefni leigubílstjóra og það er skömm að fjölmiðlum að leyfa þetta, það er skömm að fjölmiðlum að gagnrýna þetta ekki og síðast en ekki síst er skömm að Kristrún Frostadóttir að hafa mann með hatursorðræðu í ríkisstjórn sinni,“ segir Nanna sem vandar innviðaráðherra úr Flokki fólksins ekki kveðjurnar.
Þau hjónin verða til viðtals við undirritaða, Maríu Lilju, við Rauða borðið hér á Samstöðinni í kvöld klukkan átta. Þar ræða þau meðal annars um aukna fordóma í samfélaginu, áhrifin, sjálftitlaðan leigubíla-veiðimenn, ábyrgð ráðherra á öryggi borgaranna og grundvallar mannréttindi á borð við atvinnufrelsi. Þá verða birt skjáskot af meintri hatursorðræðu í garð útlendinga sem urðu á vegi blaðamanns á vefnum og lögreglu hefur/mun vera gert viðvart um.
Hér fyrir neðan má sjá færslu Nönnu Hlínar í heild sinni. Þáttinn má svo horfa á hér. Sem fyrr segir hefst útsending Rauða borðsins í kvöld klukkan átta.
Nú er svo komið að Navid treystir sér varla lengur í það að keyra leigubíl, veit einhver um nýja vinnu fyrir hann? Hann…
Posted by Nanna Hlín Halldórsdóttir on Monday 12 May 2025