Margra kílómetra bílaröð í Öxnadal – Slæmt ferðaveður og fólk beðið um að fara ekki af stað

Ísland 2. apr 2024

Tugir bíla bíða nú ofarlega í Öxnadal eftir því að komast yfir Öxnadalsheiðina. Bakkaselsbrekka er lokuð vegna umferðaróhapps sem þar varð en unnið er að því að leysa þar úr. Lítið ferðaveður er, bæði í dalnum og á heiðinni, og er fólk beðið með að leggja af stað. Færð er víða vond um landið og vegir lokaðir en yfirlit um helstu leiðir og stöðu mála þar má sjá hér neðar í fréttinni. 

Björn Þorláksson, blaðamaður Samstöðvarinnar, er einn þeirra sem er í bílalestinni sem hann taldi klukkan 10:45 að væri þetta fjögurra til fimm kílómetra löng. Björn segir að líklega séu þetta á bilinu 50 til 70 bílar framan við hann en óljóst sé hversu margir þeir séu aftan við hann. 

„Heiðin á að vera opin, samkvæmt því sem sagði í útvarpinu og var þar haft eftir Vegagerðinni. Hins vegar stendur á skilti að hún sé lokuð. Það er frekar óþægilegt að það séu uppi þessi misvísandi skilaboð,“ segir Björn. 

Þegar talað var við Björn átti hann enn nokkuð í Bakkaselsbrekkuna og sagði hann leiðindaveður á svæðinu. Á meðan að á samtalinu stóð versnaði veður enn og sagði Björn skyggni vera orðið nákvæmlega ekkert. Hvasst væri, ofankoma og mikill skafrenningur. Þá væri flughálka og skammt norðan við Akureyri hefði hann keyrt framhjá nokkuð hörðum árekstri tveggja bíla. 

„Ég hef í gegnum árin keyrt mikið og oft milli Reykjavíkur og Akureyra og ég þarf að fara nokkra áratugi aftur í tímann til að muna eftir að hafa lent í svona bílaröð, hvað þá í apríl“ sagði Björn. Hann lagði af stað úr Mývatnssveit í morgun og segir að fær og veður á leiðinni þaðan og á Akureyri hafi verið ágætt.  Aðspurður mælti Björn með því að fólki færi ekki af stað á heiðina, hvorki á leið suður né norður, að svo komnu máli. 

Það rímar við þau skilaboð sem Vegagerðin hefur gefið út en samkvæmt upplýsingum þaðan er lítið ferðaveður á svæðinu og fólk beðið um að vera ekki á ferðinni. Þá eru tafirnar sem nú eru í Öxnadalnum einnig vegna umferðaróhappsins en bílar á norðurleið komast vestan að yfir heiðina í einhverju mæli. 

Þæfingsfærð, snjóþekja eða hálka er á flestum vegum á Norðurlandi, Víkurskarð og Dalsmynni eru þá bæði lokuð. Á Norðausturlandi er þæfingsfærð á Mývatns- og Möðrudalsöræfum, Dettifossvegur er lokaður og Hólasandur einnig. 

Á Austurlandi er Fjarðahæði ófær og lokuð og þæfingsfærð víða annars staðar. Bæði Breiðdalsheiði og Öxi eru ófærar. Færð á Suðausturlandi er þokkaleg þó hálka sé á útvegum. Ekkert er að færð á Suðurlandi, Suðvesturlandi og á Höfuðborgarsvæðinu. 

Á Vesturlandi er hálka, hálkublettir og snjóþekja á nokkrum leiðum. Þæfingsfærð er á Skarðsströnd. Á Vestfjörðum eru hálka eða hálkublettir víða. Þæfingsfærð er á Ennishálsi og ófært er norður í Árneshrepp. Þröskuldar eru þá ófærir en unnið er að mokstri. Einhver töf verður þó á opnun vegna bíla sem fastir eru á veginum. Á Dynjandisheiði er þæfingsfærð og skafrenningur en vegurinn er þó opinn. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí