Réttarhöld eru hafin yfir svæðisformanni þýska öfgahægriflokksins Alternative Für Deutschland (AfD) en hann er ákærður fyrir að hafa í tvígang kallað slagorð nasista á opinberum samkomum.
Björn Höcke, svæðisformaður AfD í Thüringen, er sakaður um að hafa í maí árið 2021 enda ræðu sína í Merseburg á orðunum „Alles für Deutschland“ eða „Allt fyrir Þýskaland“ Slagorðið er bannað í Þýskalandi þar eð það var einkunnarorð stormsveita Nasistaflokksins á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar. Fleiri slagorð Nasista og táknmyndir eru bönnuð í Þýskalandi.
Saksóknarar í dómssal í borginni Halle, þar sem réttarhöldin fara fram, halda því þá einnig fram að Höcke hafi endurtekið leikinn í desember í fyrra á samkomu AfD í Thüringen kallað „Allt fyrir…“ og þannig hvatt múginn til að svara með orðinu „Þýskaland“. Saksóknarar halda því jafnframt fram að Höcke hafi verið fullljóst að slagorðið væri bannað og hvernig á því stæði. Því neitar Höcke sjálfur.
Rök lögfræðinga Höcke eru þau að með slagorðinu sé ekki verið að vísa til glæpsamlegs athæfis og það sé notað í almennu máli. Höcke sjálfur sagði í sjónvarpsþætti sem sendur var út áður en réttarhöldin hófust að hann hefði í raun aðeins verið að þýða slagoð Donalds Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseta, „Ameríka fyrst“, yfir á þýsku.
Höcke hefur verið svæðisformaður AfD í Thüringen frá stofnun árið 2013. Flokkurinn stendur sterkum fótum þar, eins og víðar í austurhluta Þýskalands, og hefur iðulega fengið mest fylgi í kosningum í héraðinu. Þrátt fyrir að vera ekki einn af leiðtogum flokksins á landsvísu er Höcke áhrifamaður í flokknum og talinn einn arkitekta þess að flokkurinn hefur sífellt færst lengra í átt til öfga hægristefnu. Höcke hefur meðal annars kallað minnismerkið um helförina í Berlín skammarlegt og gagnrýnt hvernig sögu Seinni heimstyrjaldarinnar er haldið á lofti í Þýskalandi.
Verði Höcke sakfelldur á hann yfir höfði sér þriggja ára fangelsisdóm.