Þótt lítið fréttnæmt hafi átt sér stað hér á landi yfir Verslunarmannahelgina þá var sannarlega margt ógeðfellt sem átti sér stað í landi Breta yfir síðustu viku og helgi. Óeirðir í landinu eru nú á sjöunda degi í fjöldamörgum borgum, vegna falsfrétta um að ólöglegur innflytjendi hafi verið morðinginn í Southport þar sem þrjú börn létust af völdum stunguárásar. Morðinginn var innlendur, en það hefur ekki stöðvað árásir og hryðjuverk af hálfu öfgahægri fólks í ofbeldisfullum óeirðum. Starmer lofar fjöldafangelsun „óeirðaseggja“.
Greinilegt er að breskt samfélag er að mörgu leyti púðurtunna um þessar mundir. Slík hefur sprenging óeirða og hryðjuverka verið undanfarna daga að erfitt er að lýsa því með öðrum hætti. Þúsundir öfgahægri sinnaðs fólks hefur hafið óeirðir, ráðist að lögreglu, ráðist að moskum og kveikt elda víðsvegar, meðal annars í hóteli í Rotherham sem hýsti hælisleitendur, en árásin virtist hafa þann tilgang að brenna hælisleitendur sem og starfsfólk inni.
Slíkt myndi allra jafna vera fordæmt sem hryðjuverk, en Keir Starmer, nýkjörinn forsætisráðherra Bretlands, ásamt helstu fulltrúum ríkisstjórnar sinnar hefur ekki viljað nota það orð. Heldur hefur hann lýst hryðjuverkamönnunum sem „óeirðaseggjum“ og „öfga hægri föntum“. Hann hefur þó lofað hörðum lögregluaðgerðum og fangelsun þeirra sem gerast brotlegir við lög. Innanríkisráðherrann, Heidi Alexander, hefur tilkynnt að 569 fangelsisplássum verði bætt við í lok mánaðarins og að um 6 þúsund sérþjálfaðir lögreglumenn hafi verið kallaðir út til að bregðast við þessari öldu óeirða.
Undir lok síðustu ríkisstjórnar, ríkisstjórnar Rishi Sunaks og Íhaldsflokksins, voru mótmælendur sem fjölmenntu á götur borga til að mótmæla þjóðarmorðinu á Gaza iðulega uppnefndir hryðjuverkamenn eða stuðningsmenn hryðjuverkasamtaka, af ráðherrum og háttsettum fulltrúum á þingi. Af þeim sökum sætir Starmer og ríkisstjórn hans sérstaklega mikilli gagnrýni fyrir að neita að nota slík orð um raunveruleg hryðjuverk.
Kveikjan að þessu ógeðfellda ofbeldi voru hryllilegu morðin í Southport. Ungur maður fór inn í tómstundahús barna og réðst á fjöldan allann af börnum og leiðbeinendum með hníf. Þrjú börn létust og margir fleiri særðust. Í kjölfarið fóru undirheimar öfgahægrisins á samfélagsmiðlum í hitafár að því er virðist, en samsæriskenningar fór strax á flakk um að morðinginn hafi verið ólöglegur innflytjandi og múslimi. Sannleikurinn var sá að morðinginn er fæddur og alinn upp í nágrenni Southport.
Engu að síður sprungu óeirðir út samdægurs og minningarathöfn var haldin í Southport af íbúum og aðstandendum hinna særðu og myrtu. Heilagleiki þeirrar athafnar var eyðilagður með ofsafengnum óeirðum skipulögðum af rasistasamtökunum English Defense League og á þriðja tug lögreglumanna þurftu á aðhlynningu að halda vegna meiðsla í kjölfarið. Íbúar og meira að segja sumir foreldrar hinna látnu barna fordæmdu athæfið.
Óeirðirnar breiddust svo hratt út víða um Bretland og nú á sjöunda degi þeirra eru margar borgir undirlagðar af ofbeldi, óeirðum og skemmdarverkum, brennandi bílhræjum og særðum borgurum sem og lögreglumönnum.
Stuttu eftir Brexit-kosningarnar varð mælanleg uppsveifla í tíðni hatursglæpa gegn innflytjendum. Um er að ræða þekkt mynstur í heimi stjórnmálafræðinnar og félagsvísinda, en ákveðið mynstur má merkja að þegar að eitthvað hugarfar eða hugmyndafræði er gefið lögmæti, svo sem með því að málsmetandi einstaklingar taki undir hugmyndirnar eða ýti undir þær eða með kosninganiðurstöðu þar sem slíkum hugmyndum er gefið bókstaflegt lögmæti í formi niðurstaðna eða kjörinna fulltrúa.
Hið síðarnefnda má sjá í nýafstöðnum þingkosningum í Bretlandi en meðal þess marga sem lesa má úr þeim niðurstöðum er hið gríðarmikla fylgi sem safnaðist í kringum Umbótaflokkinn svokallaða, Reform UK. Flokkurinn er leiddur af Nigel Farage, sama manninum og leiddi UKIP (United Kingdom Independence Party) sem þrýsti á íhaldið með auknu fylgi sínu að halda Brexit-kosningarnar á sínum tíma.
Farage komst í fyrsta skipti inn á þing núna og flokkur hans fékk 14,3% atkvæða og er því þriðji stærsti flokkurinn samkvæmt hlutfalli atkvæða, en fékk aðeins 5 sæti á þingi vegna kosningakerfis Bretlands.
Þessi mikli sigur Umbótaflokksins var sannarlega drifinn áfram af mikilli undiröldu óánægju, reiði og biturleika, sem Farage virkjaði vel í átt haturs, útlendingaandúðar og rasisma. Sú undiralda hvarf ekki þótt Verkamannaflokkurinn hafi unnið stórsigur í fjölda þingsæta og hefur haldið áfram að sjóða undir yfirborðinu. Farage sjálfur og hans flokksmenn hafa tekið þátt í á ýfa upp reiði óeirðaseggjanna og meðal algengustu hlutanna sem hryðjuverkamennirnir, óeirðaseggirnir og stuðningsfólk þeirra hrópar eða skrifar á samfélagsmiðla er „Vote Reform“ eða „kjósið Umbótaflokkinn“.
Farage hefur einnig áður haldið uppi öfgahægri „frétta“ þætti á áróðursstöðinni GB News þar sem hann fékk meðal annars góða gesti eins og Sigmund Davíð eitt sinn, en Sigmundur heillaði skoðanabróður sinn upp úr skónum með ómannúðlegum öfgatali sínu. Sigmundur stakk þar upp á kjörnu ráði til að sporna við hælisleitendum sem koma yfir Ermarsundið frá Frakklandi. Gefa þeim vatnsflösku og vísa þeim beint aftur út á haf. Slíkt væri auðvitað glæpsamlegt athæfi sem færi þvert gegn alþjóðasáttmálum, en bæði Sigmundur og Farage hlógu samt dátt að hugmyndinni saman. Okkar eigin Farage.