Logi Einarsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sér ekki ástæðu til að agnúast út í skrif Bjarna Benediktssonar í Mogganum í dag.
Bjarni ræðir þar í grein sem utanríkisráðherra að líklegt sé að Ísland þurfi að veita auknu fé til varnarmála. Hann nefnir að önnur lönd verji að lágmarki tveimur prósentum af landsframleiðslu til málaflokksins. Það ígildir um 90 milljörðum íslenskra króna árlega.
„Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að við þurfum að taka öryggismálin fastari tökum,“ segir Logi í samtali við Samstöðina um málflutning utanríkisráðherra.
Logi bendir á að fram til þessa hafi Íslendingar að mestu sloppið með þátttöku í borgaralegum verkefnum auk þess að veita öðrum bandalagsríkjum NATO aðstöðu.
„En það er ekki ólíklegt að hernaður framtíðarinnar verði með öðrum hætti en við höfum séð,“ segir Logi.
Hann telur að afstaða Bjarna komi ekki mjög á óvart, þótt rík hefð hafi verið fyrir því að Ísland sleppi við útgjöld sem herlaust og fámennt einangrað ríki.
„Nú erum við með stríð í Evrópu,“ segir Logi. „Baráttan snýst um grunngildi svo sem frelsi, lýðræði og jafnrétti. Jafnvel fyrir smáþjóð úti í ysta hafi er krafan um fullveldi og sjálfsákvörðunarrétt alla daga mjög ofarlega.“
Logi segir of snemmt að spá fyrir um hvort það gætu orðið örlög Íslendinga að verja 90 milljörðum árlega í varnarmál.
Þeir milljarðar færu þá ekki í annað á meðan.
„Við getum ekki endalaust skákað í því skjóli að við séum svo fámenn og sérstök.“