VG þurfti að finna reyndan ráðherra inn í Innviðaráðuneytið vegna þess hve verkefni ráðuneytisins eru flókin.
Þetta sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, formaður VG, í samtali við Rúv að loknum blaðamannafundi þar sem breytingar á ríkisstjórninni voru kynntar.
VG hefur ekki haft Innviðaráðuneytið áður. Sigurður Ingi Jóhannsson, Framsóknarflokki, hefur gegnt embættinu en verður nú fjármálaráðherra. Vegna kröfu um reynslu þurfti Svandís Svavarsdóttir að stíga þangað inn samkvæmt orðum Guðmundar Inga.
Hársbreidd munaði að stjórnarsamstarfið yrði að engu fyrir skemmstu eftir að Umboðsmaður Alþingis hafði úrskurðað að stjórnsýsla Svandísar í hvalamálinu væri ekki í samræmi við lög og góðar venjur. Þá vildu sjálfstæðismenn sprengja ríkisstjórnina. Stefndi í samþykkt vantrausts á Svandísi þegar hún fór í veikindaleyfi og Inga Sæland, Flokki fólksins, dró tillögu sína um vantraust til baka.
Bjarkey Olsen sem býr í Ólafsfirði og stendur nær útveginum en Svandís tekur nú við matvælaráðuneytinu.
Guðmundur Ingi óskaði Bjarkeyju til hamingju með að vera orðinn matvælaráðherra.
Sjálfstæðismenn hafa sagt að í þetta skiptið – eftir ráðherraskiptin – muni þeir verja Svandísi vantrausti.