„Stjórnmálin vilja helst hneppa forsetaembættið aftur undir þingið“

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona og forsetaframbjóðandi, segir að nauðsynlegt sé að forsetinn verði að vera úr röðum almennings og laus við öll tengsl við stjórnmál eða viðskiptalíf. Annars sé hætta á því að forsetinn láti til með leiðast. Í pistli sem Steinunn birtir á Facebook segir hún að helsti tilgangur forsetans sé að stöðva ofríki Alþingis og sé því nokkurs konar ofríkishemill.

Hér fyrir neðan má lesa pistil Steinunnar í heild sinni.

Elsku vinir og stuðningsfólk, þetta rann uppúr mér í morgun þegar ég ætlaði að fara í sundið. Endilega deilið ef þið hafið gaman af!

Fólkið velur forsetann

Stjórnmálaskýring fyrir stjórnmálamenn.

(Kjósendur þurfa ekki að lesa þetta, þeir vita þetta )

Venjulegt fólk á Íslandi hélt að 63 frambjóðendur myndu duga til, en nú er sýnt að fleiri úr okkar röðum verða líklega að gjöra svo vel að stíga fram og gefa kost á sér til embættis forseta Íslands.

Við leitum eftir góðum skipstjóra í brúna. Við leitum að þeim rétta. Einhvern sem skilur gangverk stjórnmála og samfélagsins. Einhvern sem við treystum að fari aldrei, ekki undir nokkrum kringumstæðum, fyrstur frá borði.

Venjulegt fólk skilur gangverk stjórnmála og samfélagsins best. Hvers vegna? Vegna þess, að almenningur lifir og hrærist í samfélaginu og stór hluti almennings líður á stundum fyrir stjórnmálin.

Að sjálfsögðu verður fulltrúi úr röðum almennings því að gegna embætti forseta Íslands. Þetta skildi okkar fyrsti forseti, Sveinn Björnsson, mætavel. Takk Sveinn. 🙏

Stjórnmálamenn verða að muna eitt:

Að hluti af starfi forseta er að vera…ég legg til orðið: Ofríkishemill.

OFRÍKISHEMILL.

Almenningur veit mæta vel að stjórnmálin snúast yfirleitt um annað tveggja og sér það raungerast trekk í trekk:

Almenn úrbótamál eru á stefnuskrá – skattar hækka og/eða hafnað.

Sérhagsmunamál eru á stefnuskrá – skattar lækka og/eða samþykkt.

Almenningur horfir á vænsta fólk setjast á þing, skilja mennskuna eftir í fatahenginu og verða sjálfhverfunni að bráð. Aukaverkanirnar skilningsleysi og forréttindablinda koma hratt fram með tilheyrandi vangetu til úrlausna og samvinnu. Almenningur verður líka endurtekið vitni að því þegar hugsjónafólk sem slæðist inn á Alþingi er jaðarsett og að því hlegið dátt.

Útkoman – Velferð víkur fyrir vanda.

Allsstaðar um heim er venjulegt fólk þolendur pólitískra leiðtoga sem virðast hafa það markmið eitt að halda völdum. Leiðtogarnir raða í kringum sig flokksfólki til að tryggja völd sín og borga fyrir það uppsett verð í formi launa, tækifæra, frama, ívilnana. Flokksfólkið nærist svo að sama skapi á foringjanum.

Þetta er fæðukeðja stjórnmálanna.

Almenningur veit að stjórnmálin vilja helst hneppa forsetaembættið aftur undir þingið. Um þetta er þorri almennings þeim ekki fyllilega sammála. Vegna þess að almenningur hugsar eins og Sveinn forseti að öllu skipti að fólkið velji forsetann.

Að sökum ofangreindra ástæðna verði forseti að vera einn af okkur.

Við erum samt alveg til í hafa textann á virðulegu máli.

Til dæmis svona:

1. Forseta skal velja úr röðum almennings og má aldrei hafa verið valdaður af venslum við stjórnmála- eða viðskiptalíf.

2. Gerist það nú, sem hæpið má teljast, að Alþingi með ofríki freistist til að skerða rétt borgara sinna, skal forseti án tafar, brúka ofríkishemilinn.

Að því búnu skal forseti biðja almenning afsökunar og bæta fyrir með frídegi á fullum launum og tafarlaust krefja þingheim um að sinna sínum skyldustörfum.

Sem eru nú ekki ýkja flókin.

Velferð allra.

Ég er farin í Vesturbæjarlaugina það er svo fallegt veðrið í Reykjavík ef einhver vill hittast og spjalla. Ég mun brátt leggja land undir fót og bjóða til framboðsfunda í heitum pottum og laugum landsins.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí