Þrefalt fleiri jarðsprengjutilfelli voru skráð í Myanmar í fyrra en árið áður og rúmlega 20 prósent þeirra sem særðust eða létu lífið voru börn. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýjum gögnum UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, sem birt voru á Alþjóðadegi vitundar um jarðsprengjur og baráttu gegn jarðsprengjum, 4. apríl síðastliðinn.
Átök hafa stigmagnast í Myanmar undanfarin misseri og ein birtingarmynd þess er jarðsprengjunotkun. Samkvæmt UNICEF voru fórnarlömb jarðsprengja 1.052 árið 2023 samanborið við 390 árið 2022.
Viðurstyggileg vopn sem fara ekki í manngreinarálit
„Notkun jarðsprengja er ekki aðeins viðurstyggileg heldur einnig brot á alþjóðlegum mannréttindalögum,“ segir Debora Comini, svæðisstjóri UNICEF í Austur-Asíu og Kyrrahafi. „Það er aðkallandi að allir aðilar þessara átaka grípi til aðgerða til að tryggja öryggi og velferð almennra borgara, sérstaklega barna, og hætti notkun þessara vopna sem engan greinarmun gera á fórnarlömbum sínum.“
Myanmar er núna meðal þeirra þjóða heims þar sem ástandið er hvað verst þegar kemur að fjölda jarðsprengja og sprengjuhergagna á víðavangi. Og mikil notkun þeirra gerir það að verkum að börn geta gengið fram á þær nær hvar sem er, hvort heldur sem er við heimili sín, skóla, leikvelli eða í sveitum.
Mikil neyð í Myanmar
Í átökunum í Myanmar hafa rúmlega 2,8 milljónir einstaklinga þurft að flýja heimili sín og 18 milljónir íbúa þurfa nauðsynlega á mannúðaraðstoð að halda. UNICEF veitti á síðasta ári tæplega 139 þúsund einstaklingum, þar á meðal börnum, víðs vegar um Myanmar fræðslu um jarðsprengjur og önnur sprengjuhergögn og þolendum slíkra slysa aðstoð.
Þegar þú ert Heimsforeldri UNICEF styður þú við bakið á starfi Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna í Myanmar og yfir 190 ríkjum um allan heim. Þú styrkir verkefni í löndum sem glíma við neyð fjarri kastljósi heimsbyggðarinnar. Heimsforeldrar eru mikilvægasti stuðningur við réttindi barna í heiminum.
SKRÁÐU ÞIG NÚNA OG KOMDU Í HÓP HEIMSFORELDRA STRAX Í DAG.
Frétt af vef UNICEF á Íslandi.