Ísraelar hleyptu í gær yfir 300 hundruð vörubílum með neyðaraðstoð inn á Gaza-ströndina. Það er mesti fjöldi sem farið hefur yfir landamærin síðan árásarstríð Ísraela hófst fyrir hálfu ári. Neyðarsendingin í gær er hins vegar ekki nema um það bil helmingur af því sem Sameinuðu þjóðirnar og hjálparsamtök segja að þurfi að berast inn á svæðið á degi hverjum, til að fæða þar á þriðju milljón manns sem eru við það að verða hungurmorða.
Alþjóðlegur þrýstingur á ísraelsk stjórnvöld hefur aukist dag frá degi upp á síðkastið og má gera ráð fyrir að það hafi haft sitt að segja um að í gær voru 322 vörubílar rannsakaðir og síðan leyft að halda inn á Gaza-strönd. Rétt rúm 70 prósent vörubílanna, 228 talsins, voru hlaðnir matvælum. Einkum var um að ræða vatn, sykur og hveiti.
Hins vegar var engum vörubílum hleypt inn á norðurhluta Gaza, þar sem Sameinuðu þjóðirnar og önnur mannúðarsamtök hafa ítrekað varað við að hungursneið sé yfirvofandi, eða jafnvel skollin á.
Sem fyrr segir er það mat Sameinuðu þjóðanna og mannúðar- og hjálparsamtaka á svæðinu að þörf sé á því að á bilinu 500 til 600 vörubílar séu sendir daglega inn á Gaza með neyðaraðstoð og matvæli. Bílfarmarnir 322 í gær eru því hvergi nærri nægjanlegir, og eru meira að segja aðeins brot af því magni sem flutt var af matvælum og öðrum nauðsynjavörum inn á svæðið áður en Ísraelar hófu árásarstríð sitt.
Talið er að um 1,5 milljón manns á flótta frá heimkynnum sínum í norður- og miðhluta Gaza sé nú saman komin í borginni Rafah sunnanvert á ströndinni. Þar rignir sprengjum Ísraela linnulítið og Benjamin Netanyahu hefur lýst því að búið sé að dagsetja árás á borgina af landi. Slík árás myndi hafa skelfilegar afleiðingar í för með sér, segja allir sem til þekkja.
Ísraelar hafa gert hjálpar- og mannúðarsamtökum gríðarlega erfitt fyrir þegar kemur að því að koma neyðaraðstoð inn á svæðið. Strangar reglur þeirra hafa valdið því að 20 til 25 vörubílum er snúið frá að meðaltali á degi hverjum, og dæmi eru um að aðeins á bilinu 100 til 150 bílar hafi fengið að fara yfir landamærin.
Bandaríkjastjórn hefur sett Ísraelum stólinn fyrir dyrnar og lýst því að ef vernd almennra borgara verði ekki tryggð, auk þess sem gefið verði í varðandi neyðaraðstoð, muni stuðningur vestra við Ísrael þverra.
Ein vandræðin sem hjálparsamtök standa frammi fyrir eru líka þau að vöntun er á hjálparstarfsfólki til að dreifa neyðaraðstoðinni. Palestínu flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNRWA, er enn óheimilt að starfa á norðanverðu Gaza, eftir að Ísraelar héldu því fram að starfsmenn UNRWA hefðu tekið þátt í árásum Hamas 7. október. Gögn þar um eru vafasöm, svo ekki sé meira sagt. Þá olli bein árás Ísrealshers á hjálparstarfsfólk World Central Kitchen, þar sem sjö hjálparstarfsmenn voru myrtir, því að samtökin, ásamt tveimur öðrum, létu af starfsemi á svæðinu. Aðrir hjálparstarfsmenn lifa í miklum ótta um líf sitt.