Kristján Þór Júlíusson fyrrum ráðherra Sjálfstæðisflokksins, bæjarstjórinn á Akureyri, Ásthildur Sturludóttir og Valgerður Sverrisdóttir, fyrrum ráðherra Framsóknarflokksins, voru í hópi fundargesta og stuðningsfólks þegar Katrín Jakobsdóttir hélt framboðsfund, súpufund, á Hótel KEA á Akureyri í dag.
Katrín sagðist snemma hafa ákveðið að hegða kosningabráttunni sinni með gamaldags hætti – ferðast og hitta fólk.
Eldri borgarar og góðborgarar á Akureyri voru áberandi á fundinum. Gerði Katrín reyndar grín að því og sagðist þurfa að vinna sé lendur á TIK-Tok.
VG-liðar og sjálfstæðismenn voru áberandi í stuðningshópi Katrínar auk framsóknarmanna. Skipuleggjendur sögðu við blaðamann Samstöðvarinnar að rúmlega 200 manns hefðu sótt fundinn, sem væri töluvert umfram væntingar.
Lítið var um átakamál á meðan blaðamaður fylgdist með.
„Við verðum að ná fram breytingum á stjórnarskrá og þetta mál hefur verið fast,“ sagði Katrín í svari við fyrirspurn úr sal. „Forseti getur talað um þetta mál og ég mun að sjálfsögðu gera það,“ sagði hún.
Samstöðin mun fjalla um tvo aðra framboðsfundi sem fara fram á Akureyri í dag. Halla Tómasdóttir og Jón Gnarr halda fundi í höfuðstað Norðurlands síðdegis og er baráttan í hámarki. Gengið verður að kjörborðinu eftir sléttar þrjár vikur, fyrsta júní.