Í frétt frá Maskínu kemur fram að þegar tölur eru skoðaðar eftir fyrstu kappræður á RÚV kemur í ljós marktæk breyting hjá Höllu Hrund Logadóttur. Fyrir kappræður sögðust 33% ætla að kjósa hana en tæplega 23% eftir kappræður, hér munar tæplega 10 prósentustigum.
Það má því búast við breytingum í niðurstöðum næstu mælinga, ef þessi sveifla sem sjá má innan könnunar Maskínu heldur áfram.
Í frétt Maskínu segir að Jón Gnarr hafi aukið fylgi sitt eftir kappræðurnar úr 10% í 14%. Breytingin fyrir og eftir kappræður hjá hinum tveimur sem mest fylgi hafa, Baldri Þórhallssyni og Katrínu Jakobsdóttur, voru hins vegar óverulegar.
Maskína spyr fólk ekki bara hvaða frambjóðanda það vilji helst sem forseta, heldur líka hvern fólk myndi kjósa ef sá sem það helst vill væri ekki í boði. Hér má sjá listann yfir fyrsta og annað val, samkvæmt Maskínu:
Frambjóðandi | Fyrsti kostur: | Annar kostur: | Samtals: |
---|---|---|---|
Halla Hrund Logadóttir | 29,7% | 21,1% | 50,8% |
Katrín Jakobsdóttir | 26,7% | 14,5% | 41,2% |
Baldur Þórhallsson | 18,9% | 22,1% | 41,0% |
Jón Gnarr | 11,2% | 14,3% | 25,5% |
Halla Tómasdóttir | 5,4% | 11,8% | 17,2% |
Arnar Þór Jónsson | 4,2% | 4,1% | 8,3% |
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir | 0,7% | 5,1% | 5,8% |
Ásdís Rán Gunnarsdóttir | 1,2% | 3,6% | 4,8% |
Helga Þórisdóttir | 0,8% | 1,0% | 1,8% |
Ástþór Magnússon | 0,4% | 1,3% | 1,7% |
Viktor Traustason | 0,8% | 0,7% | 1,5% |
Eiríkur Ingi Jóhannsson | 0,1% | 0,4% | 0,5% |
Maskína spyr líka hverja fólk vill síst sem forseta. Eftir kappræðurnar hækkaði hlutfall þeirra sem vilja Höllu Hrund síst sem forseta úr tæplega 9% í rúmlega 18%, en þó eru hlutfall þeirra sem ekki vilja Höllu Hrund sem forseta lægst allra. Katrín Jakobsdóttir er umdeildust frambjóðenda, 42% vilja ekki sjá hana sem forseta. Næst kemur Jón Gnarr með 32%.
Þetta er röð fjögurra efstu, eða neðstu ef þannig er litið á málið.
Frambjóðandi | Vilja ekki sem forseta |
---|---|
Katrín Jakobsdóttir | 41,6% |
Jón Gnarr | 32,4% |
Baldur Þórhallsson | 14,3% |
Halla Hrund Logadóttir | 11,8% |