Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og einnig formaður Starfsgreinasambandsins, hrósar Akraneskaupstaði fyrir að leggja sitt af mörkum með því að lækka gjaldskrár sem lúta að barnafjölskyldum. „Eins og fram hefur komið þá var hluti af kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði að sveitarfélögin myndu leggja sín lóð á vogarskálarnar til að styðja við kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði sem hafa það markmið að stuðla að lækkandi verðbólgu og vöxtum. Nú liggur fyrir að Akraneskaupstaður hefur staðið við sinn hluta enda var kveðið á um að lækka hækkun gjaldskrár sem lúta að barnafjölskyldum niður í 3,5%. Þessi lækkun tók gildi 1. maí sl,“ segir Vilhjálmur á Facebook.
Hann telur að þessi aðgerð skili barnafjölskyldum ávinningi sem nemur nærri 10 milljónum á ári. „Ég kallaði eftir greiningu á lækkuninni frá Akraneskaupstað og nú hefur komið í ljós að hækkun leikskólagjalda fer úr 7% í 3,5%, hækkun á fæði í leikskóla fer úr 10% í 3,5%, hækkun á frístund fer úr 7% í 3,5% og hækkun á fæði í frístund fer úr 9% í 3,5%. Þessi aðgerð skilar barnafjölskyldum hér á Akranesi ávinningi sem nemur uppundir 10 milljónum á ári og þessu til viðbótar liggur fyrir að fæði í grunnskólum verður gjaldfrjálst frá og með næsta skólaári sem mun skila umtalsverðum ávinningi fyrir barnafjölskyldur,“ segir Vilhjálmur.