Þórdís Kolbrún Gylfadóttir er aftur orðin utanríkisráðherra þó henni að vísu virðist frekar langa að titla sig varnarmálaráðherra. Það er auðvitað hjákátlegt að vilja vera varnarmálaráðherra í herlausu landi og því vill Þórdís Kolbrún helst fá íslenskan her sem allra fyrst. Um þetta ræddi Þórdís Kolbrún í Silfrinu á mánudögum í gær.
Rithöfundurinn Haukur Már Helgason var einn þeirra sem horfði á það. „Þórdís Kolbrún er tekin að titla sig varnarmálaráðherra þegar svo ber við, á erlendri grundu, án mikillar umræðu um það nýja eða nýnefnda hlutverk utanríkisráðherra. Nú talar hún um fjölþátta ógnirnar sem steðji að landinu og hversu mikilvægt það er að Ísland sé ekki einhver „soft ally“ í NATO, heldur hörkutól, með alvöru budget í varnir,“ skrifar Haukur Már á Facebook.
Hann bendir svo á þá kaldhæðni að „varnarmálaráðherran“ okkar hafi ekki verið svo hrifinn af samkomutakmörkunum, sem veittu þó mörgum ákveðna vörn. „Í hvert einasta sinn sem hún talar með þessum hætti rifjast upp fyrir mér að þegar raunveruleg ógn steðjaði að landinu, sem varð hundruðum manna að bana, þá reyndist varnarmálaráðherrann ekki tilbúin að leggja svo mikið af mörkum sem virða samkomutakmarkanir til að verjast. Hér er þó engin mótsögn, heldur einföld afhjúpun: Varnarmál, sem svo nefnast, snúast aldrei um að verja líf og limi fólks, heldur vald ríkja,“ segir Haukur Már.