Hallgrímur Helgason rithöfundur segir að spurningar sem Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir fréttakona spurði Höllu Hrund Logadóttir í Forustusætinu í gær hafi verið furðulegar og borið vott af yfirlæti. Hann telur þó að Halla Hrund hafi staðið sig vel í þættinum sem sýndur var í gærkvöldi.
„Halla Hrund var aldeilis heppin með bakgrunn í sjónvarpinu í kvöld, með hugrenningatengslin ljós og blá við konuna þarna í hægra horni skjásins. En þetta var ekki besta kvöldið hennar vinkonu minnar í spyrjendastólnum. Furðulegar spurningar satt að segja – Afhverju fórstu til Argentínu? Hvar viltu virkja? – og vottur af yfirlæti. Undirtextinn: Hvað ert þú nú að vilja upp á dekk, vina mín? HH svaraði þó vel og komst vel frá þessu,“ segir Hallgrímur á Facebook.
Skiptar skoðanir eru svo á viðtalinu í athugasemdum hjá Hallgrími. Þór Saari, fyrrverandi þingmaður, segir til að mynda að Jóhanna Vigdís sé svo hlutdræg að hún eigi ekki heima á fréttastofunni. „Það er skandall og skömm að, að Jóhanna Vigdís skuli hafa starfað á fréttastofunni lengur en í fimm daga,“ segir Þór.
Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason segir á hinn boginn að það sé svolítið sérstakt að þjóðin sé líklega að fara að kjósa forseta sem flestir vita lítið um. „Merkileg tilraun í gangi. Þjóð að að kjósa forseta – að öllum líkindum – sem hún veit sama og ekkert um. Svör hennar færa manni litla vitneskju um það – en blái kjóllinn er á sínum stað,“ segir Egill.