Líkt og Samstöðin hefur fjallað um þá mælist hitastig yfir 50 gráðum í æ fleiri löndum. En slíkur hiti, 50 gráða lofthiti, flokkast undir hamfarir. Margir virðast ekki átta sig á því hvaða afleiðingar hiti sem þessi gæti haft ef hann færi að mælast í Evrópu í meira mæli.
Þar á meðal er þó ekki Ragnar Þór Pétursson, kennari og fyrrverandi formaður Kennarasambands Íslands. „57,7° er (held ég enn) hæsti hiti sem mælst hefur á Jörðinni (Árið 1922 í Líbíu). En nú mælast yfir 50° trekk í trekk í mörgum löndum. Metið hlýtur að falla fljótlega. Í okkar heimshluta þarf hitastigið ekki að fara nálægt 50° til að valda stórkostlegum vanda,“ segir Ragnar Þór og heldur áfram:
„Mið- og norður evrópsk hús eru byggð til að halda hita, ekki losna við hann. Hús eru almennt ekki loftkæld og jafnvel þótt þau yrðu það myndi það kalla á stóraukna raforkuframleiðslu. Alvarleg lífsstílskreppa virðist vera óumflýjanleg. Ofan í umhverfiskreppu og stjórnmálakreppu. Og samkvæmt mannkynssögunni eru allar líkur á því að komið sé að endapunkti hins vestur-evrópska heimsveldis – og að það verði líkast til Kínverjar sem taki forystu enn og aftur (eins og þeir hafa raunar gert reglulega síðan á bronsöld).“