Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir að ellilífeyrisþegar á Íslandi séu í sumum tilvikum hlunnfarnir af íslenska ríkinu um allt að 80 þúsund krónur, og það í hverjum mánuði. Björn segir furðulegt hve litla athygli svo stórt hagsmunamál margra hefur vakið hingað til. Hann segir málið í raun einfalt, að í dag séu almannatryggingar skertur ólöglega um tugi þúsunda á mánuði, eftir skatta. Það sé ekki í samræmi við núgildandi lög og því eigi margir rétt á að fá tekjur sínar leiðréttar.
„Í stuttu máli er ellilífeyrir almannatrygginga skertur ólöglega um allt að 80 þúsund krónur á mánuði, eftir skatta. Ef við setjum einfalt samanburðardæmi upp í reiknivél TR um einstakling með annars vegar 400 þúsund krónur í atvinnutekjur og hins vegar 400 þúsund krónur í tekjur frá lífeyrissjóði – þá fær sá sem er með atvinnutekjurnar samtals 757.861 kr. í tekjur frá TR og vegna atvinnu. Ráðstöfunartekjur samkvæmt reiknivél eftir skatta og gjöld eru 563.950 kr,“ segir Björn í aðsendri grein í Morgunblaðinu.
Hann segir rétt að að taka fram að þetta dæmi sé eingöngu til þess að sýna fram á muninn á milli atvinnutekna annars vegar og tekna frá lífeyrissjóði hins vegar. „“Hitt dæmið er þá einstaklingur með 400 þúsund krónur í tekjur frá lífeyrissjóði – og samkvæmt reiknivél TR er sá einstaklingur með 629.722 kr. á mánuði, eða 484.478 kr. eftir skatta og gjöld. Heilum 79.472 krónum minni ráðstöfunartekjur á mánuði bara af því að aukatekjurnar eru greiðslur úr lífeyrissjóði en ekki atvinnutekjur,“ segir Björn.
Hann segir að núverandi fyrirkomulag stangast á við lög. „Ástæðan fyrir þessu er sérstakt frítekjumark atvinnutekna ellilífeyrisþega upp á 2,4 milljónir á ári – og samkvæmt lögunum á það að vera þannig að lífeyrissjóðsgreiðslur teljast ekki sem atvinnutekjur. Gallinn er að samkvæmt öllum öðrum lögum flokkast lífeyrissjóðsgreiðslur sem atvinnutekjur. Af þeim er greiddur tekjuskattur og allt sem því fylgir,“ segir Björn.
Hann bendir á að vissuelga sé undanþága fyrir örorkulífeyri. Það eigi ekki við um ellilífeyri. „Það sem er sérstakt er að í lögum um almannatryggingar er sérstaklega tekið fram að greiðslur úr atvinnutengdum lífeyrissjóðum teljist ekki sem atvinnutekjur. Það er sem sagt gerð undantekning frá almennu reglunni um lífeyrissjóðsgreiðslur – að í skilningi almannatryggingalaga sé ekki hægt að flokka þær greiðslur sem atvinnutekjur. En – og þetta er risastórt en. Þessi undanþága er gerð fyrir örorkulífeyri en ekki fyrir ellilífeyri;“ segir Björn og bætir við lokum:
„Ég er búinn að vera að elta þetta mál uppi hjá hinum ýmsu stofnunum, ráðuneytum, nefndum og hvar sem ég kom orði að frá því fyrir síðustu kosningar. Loksins fékkst hljómgrunnur fyrir ábendingum mínum um þennan risastóra galla í framkvæmd almannatryggingalaga hjá velferðarnefnd Alþingis sem fékk minnisblað frá skrifstofu Alþingis hinn 26. apríl síðastliðinn þar sem það er afdráttarlaust kveðið á um að lögin séu óskýr hvað þetta varðar, eða eins og þar er sagt: „Því er nærtækt að draga þá ályktun á grundvelli orðskýringar að til atvinnutekna teljist greiðslur sem byggjast á því iðgjaldi sem einstaklingur hefur greitt í lífeyrissjóð.“ Hér er um að ræða risastórt hagsmunamál sem einhverra hluta vegna hefur ekki fengið jafn mikla athygli og mál af þessari stærðargráðu (hundraða milljóna skerðingar á mánuði) ætti að fá.“