Enn ein glærusýningin um húsnæðismál

Einar Þorsteinsson, borgarstjóri Reykjavíkur, kynnti „nýjar áherslur“ í húsnæðisstefnu borgarinnar í dag við máttlitla pomp og prakt.

Fjölmiðlar og íbúar voru boðaðar í Borgir í Spönginni í Grafarvogi, enda vörðuðu „áherslurnar“ Grafarvog að mestu þetta skiptið

Hvað var innihaldið? Jú, ætlunin er að byggja fleiri íbúðir á litlum og meðalstórum lóðum sem henta byggðinni í Grafarvogi, sumsé „lítil fjölbýli, einbýli og parhús hér og þar í hverfinu sem taka mið af anda og aðstæðum á hverjum stað“. Engar fátækrablokkir takk.

Meira var það nú ekki. Þessi áherslubreyting var afrakstur sex mánaða vinnu að sögn borgarstjóra þar sem farið var „gagnrýnið í að skoða hvernig hægt er að byggja upp án þess að ganga á gæði þeirra sem fyrir eru í hverfunum“.

Í raun að friðþægja íbúa Grafarvogs, sem margir hverjir búa í einbýlishúsum eða litlum fjölbýlum, margt hvert ráðsett millitekju-, efritekju- og eftirlaunafólk.

Ekkert að því í sjálfu sér, nema mögulega fremur innantóm yfirlýsing eftir sex mánuði af gagnrýnni skoðun.

Restin af tilkynningunni og fundinum fór í að ræða alls konar byggingaframkvæmdir sem eru annaðhvort nú þegar í ferli eða planað er að hefja. Ártúnshöfði verandi dæmi um hverfi sem hafið er vinnu við að byggja, hverfi sem áður var að mestu iðnaðartengt.

Þá kom fram að byggingarfulltrúi hafi skráð 605 íbúðir á byggingarstig það sem af er komið ári, til samanburðar við 690 íbúðir skráðar á byggingarstig á öllu árinu 2023.

Enn og aftur er þó ljóst að borgin hyggst ekki byggja nokkurn skapaðann hlut sjálf, enda gervöll stjórnmálastétt Íslands með sýnilegt ofnæmi fyrir þeirri hugmynd. Heldur snýst þessi róttæka „áhersla“ ekki um neitt annað en skipulag lóða og útdeilingu þeirra.

Það sást best á tveimur orðum í tilkynningu borgarstjóra, „markmið borgarinnar er að skapa aðstæður fyrir uppbyggingu á 1.600 íbúðum á ári“. Þau tvö orð verandi „skapa aðstæður“. Sama orðagjálfur og finna má í Hafnarfirði, í Mosfellsbæ og á Alþingi, eins og Samstöðin hefur fjallað nýlega um.

Þ.e.a.s. að búa til „hvata“, „skilyrði“, „hvatningu“ og „aðstæður“ fyrir byggingu íbúða sem þýðir það einfaldlega að leggja þá ósk fram til markaðsaðila að byggja. Það hefur hingað til skilað litlum árangri þar sem ár hvert er byggt langt undir íbúðaþörf, þensla á byggingamarkaði eykst jafnframt þar sem mikil aukning er í framkvæmdum og byggingum á húsnæði fyrirtækja, en íbúðauppbygging dregst bókstaflega saman.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí