Leitin að heilbrigðisþjónustu fyrir þá sem ekki eru í lífshættu hefur marrgoft orðið Íslendingum tilefni skoðanaskipta, ekki síst á samfélagsmiðlum.
Eva Hauksdóttir lögmaður upplýsir á facebook að samkvæmt Heilsuveru sé enginn tími laus hjá heilsugæslunni á þessu ári.
„Ekki heldur hjá þeim sérgreinalæknum sem í mínu tilviki kæmu til álita,“ segir Eva.
Hún segist hafa haldið að læknavaktinni væri ætlað að vera nokkurskonar neyðarþjónusta fyrir þá sem komast ekki að á skrifstofutíma og þá til að sinna tilvikum sem eru ekki nógu alvarleg til að eiga heima á bráðamóttöku.
„Telst það bara viðunandi á Íslandi að notendur heilbrigðisþjónustu panti ekki tíma heldur verji helginni í halarófu sem nær út á götu?“ Spyr Eva og vísar til þess ástands sem iðulega skapast á bráðamóttöku.
„Eða, ef það er rétt hjá mér að læknavaktin sé hugsuð fyrir undantekningar, er þá virkilega engin heilbrigðisþjónusta í boði á Íslandi nema krabbameinsleit og neyðarþjónusta?“