Þegar Bjarni Benediktsson kynnti ríkisstjórn sína að loknum vendingum í vor eftir að Katrín Jakobsdóttir hafði vikið úr stafni, sagði hann ítrekað í viðtölum við fjölmiðla að betra væri að stjórnin starfaði áfram en boða til kosninga vegna þess hve mikið lægi við að afgreiða fjögur mál.
Þrjú þeirra brýnu mála sem Bjarni nefndi ítrekað voru orkumál, útlendingamál og efnahagsmál.
Nú eru breytingar á útlendingalögum ekki lengur á dagskrá þingsins. Lítið fer fyrir aðgerðum sem minnka verðbólgu eða stemma stigu við hávöxtum auk þess sem pattstaða og óeining virðist uppi gagnvart orkumálum innan stjórnarinnar.
Þegar Þórarinn Ingi Pétursson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, sat fyrir svörum á Samstöðinni í fyrrakvöld, vildi hann ekki spá fyrir um að hvaða frumvörp færu í gegn fyrir þingfrestun sem líklega verður um helgina. Virðist fátt annað í hendi en Fjármálaáætlun. Kannski er til marks um sundurlyndið að mestallur gærdagurinn fór í að þingmenn ræddu skoðanir sínar á áfengi á þingfundi. Ekki er að sjá að niðurstaðan Bjarkeyjar Olsen matvælaráðherra að leyfa hvalveiðar til eins árs hafi höggvið á hnútana.
Aðeins tveir dagar eru eftir af starfstíma Alþingis samkvæmt dagskrá. Í viðtali á Bylgjunni í morgun benti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, á að Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra og formaður VG hafi slegið flest áherslumál Bjarna út af borðinu. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, hafi einnig virst lítið spenntur fyrir áherslum Bjarna.
Eftir stendur sú spurning hvort stjórnarslit verða að veruleika um leið og þing kemur aftur saman í haust.
Mikill styrr stendur innan stjórnarinnar um auðlindasölu og lagareldisfrumvarpið svo dæmi séu nefnd. Er ekki að efa að skoðanakannir sem sýna sögulega lágt fylgi Sjálfstæðislfokksins koma í veg fyrir að Bjarni geti stillt samstarfsmönnum upp við vegg.