Veruleikafirring Steingríms J. Sigfússonar er sviðsljósinu í viðtali sem blaðamenn Heimildarinnar tóku við fyrrverandi þingmanninn og fyrrverandi formann og stofnanda Vinstri grænna. Kannski mætti kalla það afneitun til að vera mildari í orðalagi. Viðtalið er hluti af umfjöllun Heimildarinnar um stöðu VG á þeim tímamótum sem flokkurinn er á eftir brotthvarf Katrínar Jakobsdóttur.
Eins og flestir vita kannski hefur flokkur Vinstri grænna bara haft tvo formenn frá stofnun, það er hann Steingrímur og svo Katrín. Bæði hafa leitt flokkinn í langa tíð og mótað sögu hans hvort með sínum hætti.
Aðspurður um fylgistapið mikla, en fylgi VG var í 3,3% í síðasta þjóðarpúlsi Gallups, var svar Steingríms fyllt firringu. „Það sem ég hef mestar áhyggjur af og er umhugsunarefni fyrir lýðræðið er að ef þetta er að verða reglan: Að mönnum sé hegnt fyrir það að axla ábyrgð og leggja sitt af mörkum eftir að hafa verið kosnir til að stjórna.“
Með öðrum orðum þá er staðan að engu leyti ákvörðunum VG að kenna, heldur aðeins hinum vondu kjósendum sem refsa flokknum fyrir göfugt stjórnarsamstarf. „Á maður þá bara að sleppa því? Er þá aðferðin sú að axla aldrei ábyrgð, fara aldrei í ríkisstjórn, taka aldrei að sér nein erfið eða óvinsæl hlutverk?“
Steingrímur skautar auðvitað framhjá því að samstarf flokkanna þriggja var allt annað en fyrirfram gefið, enda aðrir möguleikar í stöðunni. Vinstri græn tóku þá meðvituðu ákvörðun að gangast til liðs við pólitískar andstæður sínar í Sjálfstæðisflokknum og það sem meira er, hafa varið ómældum tíma og pólitísku kapítali sínu í að verja og styðja gjörðir Sjálfstæðismanna. Þau hafa iðkað þannig mjög svo gamaldags og hefðbundin stjórnmál þar sem aðili að stjórnarsamstarfi verður sjálfkrafa að vera alltaf sammála öllu því sem stjórnin gefur út. Í raun eru viðbrögð Steingríms til marks um þá gamaldags afstöðu, enda sjálfur af mjög gömlum skóla í íslenskum stjórnmálum.
Merkilega þá virðist Sjálfstæðisflokkurinn hins vegar fullkomlega fær og frjáls um óhefðbundnari aðferðir, en þingmenn flokksins hafa gengið mjög langt í að níða, gagnrýna og hóta vantrausti gegn meðlimum samstarfsflokks síns í VG.
Steingrímur er þó á því að VG hafi gert „ótrúlegt gagn“ þó hann segi það samt hafa verið „umdeilanlegra“ að mynda stjórn aftur árið 2021. Ríkisstjórnin hafi „skorað sjálfsmörk“ eins og við söluna á Íslandsbanka.
Það verður þó ekki séð að nokkuð annað en endalaus hrina af sjálfsmörkum hefði átt að vera fyrirséð í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, sem þjónar aðeins einum tilgangi á sviði stjórnmálanna, en það er að gera vel við auðvaldið. Það að taka höndum saman með þeim flokki mun vafalaust verða sú skýring sem trónar á toppi sagnfræðinnar þegar dánarorsök flokks Vinstri grænna verður krufin í áraraðir. Hegning kjósenda er þá bara afleiðing ákvarðana Vinstri grænna, ekki frumorsökin eins og skilja má af orðum Steingríms.