Kristján Hreinsson, skáld úr Skerjafirði, hefur kært Lilju Dögg Alfreðsdóttur menningarráðherra fyrir það sem hann telur lögbrot Ríkisútvarpsins.
Í kæru Kristjáns segir að fjölmargir starfsmenn RÚV sem Lilja sé ábyrg fyrir, stundi lögbrot með því að breyta íslenskri tungu, fyrst og fremst með því að auka notkun hvorugkyns og draga úr notkun karlkyns í nafni kynhlutleysi í málfari, sem byggi á misskilningi.
„Ég er íslenskt skáld, ég nota íslensku í listsköpun minni, ég er íslenskur ríkisborgari og mér er annt um íslenska tungu. Ég nýti mér þjónustu RÚV og hef hagsmuna að gæta þegar ég geri þá kröfu að stofnunin leggi rækt við íslenska tungumálið, líkt og lög kveða á um,“ segir Kristján.

„Ríkisútvarpið hefur skýrar skyldur gagnvart íslenskunni, lög um Ríkisútvarpið. Þessum skyldum hefur stofnunin ekki sinnt og augljóst er að starfsmenn hafa unnið gegn því að standa vörð um og leggja rækt við íslenskuna eins og þeim er þó skylt að gera samkvæmt laganna hljóðan. Þessi afvegaleiðsla á sér rætur í því sem kallast pólitísk rétthugsun og virðist hafa þá ætlun að sýna því fólki stuðning sem helst kýs að um það sé talað í hvorugkyni. Þessi einhliða ákvörðun gerir það að verkum að stjórnmálaskoðanir starfsmanna endurspeglast í notkun þeirra á íslenskunni,“ er meðal þess sem segir í kæru Kristjáns.