Associated Press greinir frá:
Þúsundir mótmælenda sem voru að mótmæla skattahækkunum réðust inn í þinghús Kenía í höfuðborginni Naíróbí á þriðjudag, sendu þingmenn á flótta og brenndu hluta byggingarinnar. Lögreglan skaut á mótmælendur, drap 5 og særði 200, a.m.k. 45 hafa verið lagðir inn á sjúkrahús.
Varnarmálaráðherra Kenía sagði að herinn hafi verið sendur á vettvang til að aðstoða lögreglu í neyðarástandinu.
Mótmælendur höfðu krafist þess að þingmenn greiddu atkvæði gegn lagafrumvarpi sem fjallar um að innleiða nýja skatta. Þá hefur einnig reiði vaxið meðal almennings í landinu vegna stöðugt hækkandi framfærslukostnaðar. Þingmenn voru nýbúnir að samþykkja frumvarpið þegar mótmælendur réðust inn í þinghúsið og þingmenn þurftu að flýja.
Með þessu frumvarpi vildi ríkisstjórnin safna fé til að greiða niður skuldir, en mótmælendur sögðu að frumvarpið valdi almenningi efnahagslegum skaða, þar sem milljónir eiga í erfiðleikum með að komast af.
William Ruto, forseti Kenía, hafði verið utan borgarinnar þegar mótmælin áttu sér stað. Búist var við að hann myndi í þessari viku staðfesta umdeilda lagafrumvarpið og gera það að lögum.
Á miðvikudag ávarpaði Ruto þjóðina og sagði að hann myndi ekki skrifa undir lagafrumvarpið, daginn eftir að mótmælendur réðust inn í þinghúsið og nokkrir voru skotnir til bana.
Upphaflega hafði forsetinn sakað mótmælendur um „landráð“. En nú viðurkennir hann að frumvarpið hafi valdið „mikilli óánægju“ og að hann hafi hlustað á mótmælendur og látið eftir þeirra kröfum. Þetta er mikið pólitískt áfall fyrir Ruto, sem komst til valda í Kenía með því að lofa þegnum landsins að takast á við vaxandi kostnað en hefur séð stóran hluta landsins undir forystu ungs fólks sameinast í andstöðu við nýjustu tilraunir hans til umbóta.