Á vefsíðu leigufélagsins Bríetar er félagið sagt vera sjálfstætt starfandi sem stuðli að langtíma öryggi á leigumarkaði, með sérstaka áherslu á landsbyggðina og sé rekið án hagnaðarsjónarmiða. Félagið er eign Húsnæðis- og Mannvirkjastofnunar og var stofnað til að halda utan um eignasafn Íbúðalánasjóðs, þegar að sjóðurinn var sameinaður Mannvirkjastofnun til að mynda HMS.
Leigufélagið Bríet á jafnframt að starfa samkvæmt eigendastefnu sem mótuð sé af stjórn Bríetar, háð samþykki eigendanna, sem er stjórn HMS.
Í stjórn Bríetar og í stjórn HMS sitja hins vegar að mestu sama fólkið og meirihluti beggja úr Framsóknarflokknum.
Eins og Samstöðin fjallaði um nýverið hefur leigufélaginu Bríet frá stofnun þess verið stjórnað að mestu af vel tengdu fólki innan úr Framsóknarflokknum. Þá hefur félagið einnig verið rekið á undarlegan hátt ef marka má yfirlýst markmið þess, að vera „rekið án hagnaðarsjónamiða“ og stuðla að langtímaöryggi á leigumarkaði, þar sem leiguverð eru há og mikill fjöldi eigna félagsins hefur verið seldur á undanförnum árum, hið minnsta 20 eignir á Suðurlandi sem dæmi fyrir hagnað á um rúmlega hálfan milljarð króna samtals.
Það sem vekur því furðu er að skoða skipan í stjórnir félagsins annars vegar og stofnunarinnar (HMS) sem á félagið hins vegar.
Sama fólkið í báðum stjórnum
Formaður Bríetar er Jón Björn Hákonarson og var hann áður bæjarstjóri Fjarðabyggðar fyrir Framsóknarflokkinn. Jón sagði af sér pólitísku embætti sínu í kjölfar gagnrýni á það að hann hafi ekki skráð eignir sínar rétt í hagsmunaskrá. Jón sagðist sjálfur hafa sagt af sér vegna þreytu. Jón „hinn þreytti“ fór samt beint í annað starf sem formaður Bríetar en á sama tíma var hann skipaður í stjórn HMS þar sem hann situr beggja megin borðs.
Hann er ekki einn um þetta en Björn Gíslason, einn stjórnarmanna Bríetar, er einnig stjórnarmaður HMS. Björn vinnur annars líka dagvinnu í Reykjavík sem borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Elín Oddný Sigurðardóttir, fyrrum varaborgarfulltrúi Vinstri grænna í Reykjavík til margra ára, situr í stjórn beggja líka, bæði Bríetar og HMS og hefur raunar gert árum saman. Frá 2020 í stjórn HMS og frá 2019 í stjórn Bríetar, að því er blaðamaður kemst næst.
Stjórnir bæði HMS og Bríetar telja alls fimm manns og því sitja sömu þrjár manneskjurnar í meirihluta beggja megin. Hjá „sjálfstætt starfandi“ einkahlutafélaginu Bríeti sem og hjá eigandanum HMS sem samþykkja þarf stefnumótun félagsins, með öðrum orðum þá samþykkja þau eigin verk. Svo mikið er lýðræðið og aðhaldið á þeim bæ.
Hinir tveir stjórnarmeðlimir beggja sem sitja ekki hvoru megin eru hins vegar rammpólitískt fólk líka.
Framsókn með meirihluta beggja megin
Stjórnarformaður HMS er maður að nafni Sigurjón Örn Þórsson, en árið 2003 var hann aðstoðarmaður félagsmálaráðherra, Árna Magnússonar, sem var úr röðum Framsóknarflokksins. Sigurjón var þar áður kosningastjóri Framsóknarflokksins í suðvesturkjördæmi í Alþingiskosningum. Hann hefur einnig unnið sem framkvæmdastjóri ýmissa fyrirtækja.
Varaformaður HMS er Herdís Sæmundardóttir, fyrrverandi varaþingmaður Framsóknar, fyrrverandi stjórnarformaður Byggðastofnunar og hefur gegn störfum fyrir sveitarfélagið Skagafjörð.
Í stjórn Bríetar situr svo kollegi hennar Herdísar úr Skagafirði, alræmdu höfuðvígi Framsóknarflokksins, hann Sigfús Ingi Sigfússon, en Sigfús var ráðinn sem sveitarstjóri Skagafjarðar árið 2018 og endurráðinn árið 2022 þar sem hann gegnir því embætti enn fyrir meirihluta Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.
Að lokum er það svo Lilja Einarsdóttir, varaformaður Bríetar, en Lilja er oddviti Framsóknarflokksins í Rangárþingi eystra og hefur skipst á embætti sveitarstjóra fyrir sveitarfélagið við oddvita Sjálfstæðisflokksins.
Í fyrri umfjöllun Samstöðvarinnar um brask og brall Framsóknarflokksins með leigufélagið Bríet þótti blaðamanni ljóst að félaginu væri stjórnað af innmúruðu Framsóknarfólki, en það sem meira er vert er að eiganda félagsins, hinni opinberu stofnun HMS er einnig stjórnað af álíka vel tengdu fólki innan úr þeim flokki. Háttsettir núverandi eða fyrrverandi kjörnir fulltrúar flokksins sem og flokkshestar skipa stjórnir beggja með sterkan meirihluta í sitt hvoru.
Þá er eigendastefnan mótuð af aðilum sem sitja annaðhvort í báðum stjórnum, í meirihluta, eða eru í sama flokki, í meirihluta og því vart hægt að sjá annað en að aðhald sé lítið sem ekkert þarna á milli. Einnig má því sjá blákalt þar að stefnu í húsnæðismálum er haldið kirfilega í stjórn Framsóknarflokksins, þeirri sömu stefnu og hefur beðið algjört skipbrot með hrikalegum afleiðingum fyrir íslenskt samfélag.
Stjórn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar:
- Formaður stjórnar: Sigurjón Örn Þórsson –
- Varaformaður stjórnar: Herdís Sæmundardóttir
- Elín Oddný Sigurðardóttir
- Jón Björn Hákonarson
- Björn Gíslason
Stjórn leigufélagsins Bríetar:
- Formaður stjórnar: Jón Björn Hákonarson
- Varaformaður stjórnar: Lilja Einarsdóttir
- Björn Gíslason
- Elín Oddný Sigurðardóttir
- Sigfús Ingi Sigfússon