Leigjandi nokkur sendi Samstöðinni áhugavert erindi og greiningu á leigufélaginu Bríet. Leigufélagið rukkar háar leigufjárhæðir og hefur selt margar eignir á undanförnum árum og skilað gríðarlega miklum hagnaði, þrátt fyrir afar lág upprunaleg kaupverð eignanna.
Leigufélagið Bríet er í eign ríkisins en sjálfstætt rekið og er því ætlað að vera „án hagnaðarsjónarmiða“ og „að vera hluti af uppbyggingu og styrkingu leigumarkaðar“, með áherslu á langtímaleigu og að styrkja leigumarkaðinn á landsbyggðinni sérstaklega. Bríet var upphaflega stofnað sem leigufélag Íbúðalánasjóðs, en eftir að Íbúðalánasjóður og Mannvirkjastofnun runnu saman í Húsnæðis- og mannvirkjastofnun varð leigufélagið að dótturfélagi HMS.
Þá hafa yfirvöld gjarnan notað Bríet sem dæmi um framlag sitt til úrlausna á leigumarkaði og hreykt sér mikið af.
Framsóknarfélagið Bríet
Í stjórn og við rekstur félagsins situr fyrst og fremst innmúrað Framsóknarfólk. Framkvæmdastjórinn, Helgi Haukur Hauksson var framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins og þar áður formaður ungra Framsóknarmanna. Þáverandi formaður Bríetar þegar Helgi var ráðinn var Ásta Björg Pálmadóttir, fyrrum sveitarstjóri Skagafjarðar og var sjálf skipuð í stjórn Íbúðalánasjóðs árið 2018 af Ásmundi Einari Daðasyni, þáverandi félags- og jafnréttismálaráðherra Framsóknarflokksins.
Núverandi formaður Bríetar er Jón Björn Hákonarson, sem hrökklaðist úr embætti bæjarstjóra Fjarðabyggðar, þar sem hann var oddviti Framsóknarflokksins, eftir að hafa verið spurður út í óskráðar eignir sínar. Jón sagði ástæðu uppsagnarinnar vera að hann væri „orðinn þreyttur“. Ekki svo þreyttur þó að hann geti ekki gegnt formennsku leigufélagsins Bríetar.
Jón sem bæjarstjóri Fjarðabyggðar hafði þá selt Bríeti íbúðir í eign sveitarfélagsins árið 2021, gegn eignarhlut sveitarfélagsins í leigufélaginu.
Bríeti aldrei ætlað að standa í „leigustarfsemi, heldur var Bríet stofnað til að halda utan um eignir þar til þær seldust“.
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins
Leigjandinn sem sendi erindið lýsir samskiptum sínum við Óla Björn Kárason, þingmann Sjálfstæðisflokksins, í heimsókn þingmanna flokksins á Selfoss í hringferð sinni um landið. Óli Björn hafi tjáð leigjandanum það aðspurður, að leigufélaginu Bríeti hafi aldrei verið ætlað að standa í „einhverri leigustarfsemi, heldur var Bríet stofnað til að halda utan um eignir þar til þær seldust“.
Orð Óla Björns eru þar í engu samhengi við yfirlýstan tilgang leigufélagsins, en eins og leigjandinn bendir á þá gengur hegðun félagsins einnig í berhögg við þann tilgang.
Leigjandinn segir að bæta þurfi við þau orð þingmannsins að tilgangurinn hljóti einnig að vera „að hafa almenning að féþúfu þar til þær seljast með þvi að leigja þær svona óhagnaðardrifið“.
Leiguverð Bríetar allt að 86% af ráðstöfunartekjum leigjanda án húsnæðisstyrks
Leigufjárhæðir leigjandans hafi þannig hækkað frá 210 þúsund, upp í 246 þúsund krónur á sínum leigutíma og það fyrir 119 fermetra eign á landsbyggðinni. Með húsnæðisstyrk hafi upphæðin numið frá 45-58% af ráðstöfunartekjum leigjandans, en án styrksins hefði það náð upp í allt að 86% og lægst numið allt að 65% af ráðstöfunartekjum. Á þeim tíma hafi viðhaldi verið illa ef ekkert sinnt og leigjandinn þurft að standa í töluverðu stappi við leigufélagið.
Á árunum 2019-2024, bendir leigjandinn ennfremur á, hefur Bríet selt 20 af þeim 40 eignum sem leigufélagið hefur að eign á Suðurlandi fyrir samtals rúmlega 803 milljónir. Kaupverð eignanna 40 í heild var samtals rúmlega 454 milljónir króna á sínum tíma, sem gerir meðalverð íbúðanna rúmar 11 milljónir króna.
Með einfaldri stærðfræði bendir leigjandinn þannig á að gróðinn af sölu eignanna sé gríðarlegur og „gerir hagnað hjá hinu óhagnaðardrifna leigufélagi upp á kr.576.054.200“.
Bríet hafi þannig hagnast um rúmlega hálfan milljarð á eignasölu, þrátt fyrir yfirlýst markmið félagsins að auka umsvif sín á leigumarkaði og stuðla að langtímaleigu.
Leigjandinn segist mun fremur fyrir sitt leyti „viljað kaupa eignina á kr.11.357.290 en að hafa greitt rúmlega kr.13.000.000 í húsaleigu til ríkisins á 5 árum“. Ef almenningi hefði staðið slíkt til boða segir leigjandinn þá „hefðu þær selst samstundis“. Leigjandinn bætir við: „Ef ekki átti að fara í leigustarfsemi með eignir Íbúðalánasjóðs sem Leigufélagið Bríet fékk á sérkjörum – hefðu þær þá ekki bara verið seldar 2019?“
Það orki tvímælis að lýsa yfir markmiði um langtímaleigu, rukka fyrir það há verð og fara svo samt í eignasölu til gróða.
„Í sannleika sagt þá tel ég að stjórnvöld með Leigufélaginu Bríet sé ekkert annað en „copycat“ leikur af starfsemi Heimavalla. Líta megi svo á að ríkisrekna óhagnaðardrifna Leigufélagið Bríet í eigu ríkisstofnuninnar Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi brotið enn verr á leigjendum þessa lands en Heimavellir.“
Að lokum bendir leigjandinn á undarlega þróun: „Hvað er að frétta með launakostnaðinn hjá Leigufélaginu Bríet hann hefur hækkað úr kr.5.363.021 (2019) í kr.97.942.214 (2022)?“
Blaðamanni þykir víst að það hljóti að kosta töluvert að halda uppi launum fyrir hjörð af oddvitum og framkvæmdastjórum Framsóknarflokksins, fyrir hina svokölluðu samtryggingu auðvaldsins.