Heilbrigðisþjónusta á Íslandi heldur áfram hnignun sinni ef marka má nýja breytingu í þjónustu heilsugæslna.
Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir frá því við RÚV að síðdegisvaktir heilsugæslustöðva hafi verið lagðar af. Ekki verður lengur hægt að ganga að læknisþjónustu vísri á milli fjögur og sex síðdegis á virkum dögum eins og áður var. Nú þurfi öll erindi að berast í síma í númer 1700 og hjúkrunarfræðingar verði sía á þau erindi, um það hvort fólki verði veitt tíma hjá lækni eður ei.
Þjónusta heilsugæslna hefur tekið stakkaskiptum undanfarin ár eins og margir hafa eflaust tekið eftir, augljóslega voru þar áhrif Covid-faraldursins að verki um stund, þar sem fyrirkomulag þjónustunnar hefur sveiflast fram og til baka.
Núna er enginn faraldur, né önnur krísa í sjálfu sér, en álagið á heilbrigðiskerfið, sem hefur elt okkur á röndum allar götur frá Hruni og jafnvel áður, heldur áfram að hrekkja okkur. Einhverja hluta vegna virðist engin ríkisstjórn frá Hruni hafa áttað sig á mikilvægi heilbrigðisþjónustu fyrir land og þjóð, væntanlega vegna slæmra áhrifa hægrimennsku þeirra.
Sigríður Dóra segir breytinguna bót, þar sem hjúkrunarfræðingar geti nú flokkað erindi eftir bráðri neyð þeirra. Réttilega bendir blaðamaður RÚV á að gríðarlega erfitt er að panta tíma hjá læknum, þegar ekki sé um bráðatilfelli að ræða, en flestir læknar eru hreinlega fullbókaðir mánuði fram í tímann.
Það þarf varla að segja það að heilsufarskvillar eða áhyggjur geta verið afar hvimleiðar og skert lífsgæði þó svo að þau flokkist ekki sem bráðatilfelli. Þannig er því bundið um hnútana með þessu að margir fá ekki aðgang að læknisþjónustu nema margra mánaða bið taki við.
Fólki er þá iðulega bent á Læknavaktina, sem virðist með þessari þjónustubreytingu heilsugæslna, hafa endanlega tekið við sem síðdegisvakt, þó hún sé opin á kvöldin og um helgar. Það má þó velta fyrir sér hvers vegna það þyki eðlilegt að einkarekin þjónusta sé með svo sjálfsagða möguleika, en heilbrigðiskerfið hið opinbera sé ófært um það.