Hryllileg frásögn af framkomu strætóbílstjóra í garð barns var efniviður fréttar Vísis í dag. 10 ára stúlku var vísað úr strætó á ókunnugum stað og af frásögninni að dæma var rasískur undirtónn í framferði bílstjórans. Stúlkan er lituð á hörund, en faðir hennar er af erlendu bergi brotinn.
Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, deilir fréttinni á Facebook-síðu sinni og segir hegðun bílstjórans „með öllu óásættanleg“, ef satt reynist. Allir eigi skilið sömu virðingu og þjónustu, sem og mannréttindi. Hún hyggst beita sér af fullum þunga fyrir þeim áherslum þegar hún tekur sæti í stjórn Strætó í haust.
Málavextir eru þeir að stúlkan var á leið til ömmu sinnar í Strætó númer fjórtán, en tók óvart leiðina í ranga átt. Hún fór því alla leið vagnsins niður að Granda þar sem endastoppið er og áfram aftur í hina leiðina til baka.
Áður en hún kom að þeirri stoppistöð sem hún átti að fara út stöðvaði bílstjórinn vagninn, skipaði henni að fara út og tjáði henni á ensku: „Ég vil ekki hafa þig í strætónum mínum“.
Stúlkan er tíu ára gamalt barn sem var skipað að fara út úr vagninum á ókunnugum stað af ókunnugum manni.
Móðir stúlkunnar, Ágústa Nielsen, lýsti sögunni við Vísi og er réttilega bandbrjáluð yfir framferði bílstjórans. Þó ekki síst framferði Strætó bs., en fyrirtækið tók sér langan tíma í að svara kvörtun hennar.
„Mér finnst ógeðslega skítt að það taki heila viku að skrifa mér tölvupóst tilbaka um að þau séu loksins að skoða málið núna“, sagði Ágústa við Vísi.
Jóhannes S. Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó bs., segir í svörum við Vísi að hann telji sögu stúlkunnar trúverðuga. Á klassískri skriffinsku segir hann að „málið sé í skoðun“. Ennfremur segir hann að engin myndavél hafi verið í vagninum, sem er í fyrsta lagi undarlegt þar sem myndavélar voru innleiddar í vagna fyrir nokkru síðan, þá með þeim rökstuðningi að vernda bílstjóra og farþega. Hvers vegna myndavél var ekki í þessum ákveðna vagni er óljóst. Þá er líka óljóst hvers vegna hann telur þörf á því að nefna það, nema til að draga úr trúverðugleika eða ábyrgð Strætó bs. til að gera nokkuð í málinu. Mögulega er um að ræða klaufalega framsetningu Vísis, ef blaðamaður þeirra spurði út í það hvort myndband hafi náðst af þessu.
Þá kemur líka fram að ekki hafi verið talað við bílstjórann enn. Sem hlýtur að teljast einhvers konar afrek í seinagangi.
Jóhannes segir þó að þetta sé „framkoma sem á ekki að viðgangast hjá okkur. Það á ekki að vísa krökkum út, það eru mjög skýr fyrirmæli til vagnstjóra“ og að kynþáttafordómar séu ólíðandi.
Í athugasemd undir færslu Dóru Bjartar um málið segir önnur kona frá svipaðri sögu. Sonur hennar og vinur hans sem er dökkur á hörund lentu í því að bílstjórinn kallaði vin sonar hennar n-orðinu. Drengirnir voru 10-11 ára gamlir þegar þetta gerðist.
Kona segir drengina ekki hafa sagt strax frá þessu og því ekki munað hvenær þetta gerðist nákvæmlega og því gat hún illa fylgt málinu eftir, en hún segir líka að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem hún heyrir rasíska frásögn um bílstjóra hjá Strætó bs.