Þó margir hafi gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að skella skollaeyrum við ástandinu í Palestínu um þessar mundir, þá verður það sama varla sagt um almenna Íslendinga. Margir hafa jafnvel umturnað lífi sínu í þágu þeirra sem minnst mega sín í Palestínu. Einn slíkur Íslendingur er Hólmfríður Garðarsdóttir ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
Rauði krossinn á Íslandi greinir frá því að hún sinni nú sendifulltrúastöfum á Gaza á vettvangssjúkrahúsi Alþjóðaráðs Rauða krossins sem rekin er í samstarfi við 12 Rauða kross landsfélög, þar á meðal Rauða krossinn á Íslandi.
„Í starfi mínu sem ljósmóðir á kvennadeild spítalans þjónusta ég konur í barneignarferlinu, á meðgöngu, í fæðingu og eftir fæðingu barnsins. Við sinnum einnig konum með vandamál tengt kvensjúkdómum eftir getu. Starfið er krefjandi en ég er mjög þakklát fyrir að fá tækifæri til að styðja við konurnar hér sem eru hetjur í mínum huga“ segir Hólmfríður í samtali við Rauða krossinn, sem bendir þeim sem vilja leggja þessum málstað lið að það sé hægt með framlagi í hjálparsjóð Rauða krossins: 0342-26-12 kt: 530269-2649