Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, segir að menn ættu ekki fagna of ákaft falli harðstjórans Bashar al-Assad í Sýrlandi því ekki er víst að það sem kemur í staðinn verði nokkuð skárra. Kristinn bendir á að reynslan sé ekki sérstaklega góð hvað varðar trúarleg uppreisnaröfl í þessum heimshluta.
„Undraskjótt fall Assad stjórnarinnar í Sýrlandi markar þáttaskil en sem fyrr er stóra fréttin hulin um hvað raunverulega gerðist á bak við tjöldin enda var Sýrland staðgönguvettvangur erlendra stríðsafla, aðallega Bandaríkjanna, Ísraels, Tyrklands, Rússlands og Írans. Assad féll eins og lauf í vindi af því að Íran og Rússland hættu að bakka hann upp hernaðarlega. Hesbollah samtökin í Lebanon, studd af Iran, voru líka í henglum eftir árásir Ísraela og höfðu ekkert uppá að bjóða í stuðningi,“ segir Kristinn og heldur áfram:
„Það er auðvellt að segja að farið hafi fé betra en áður en menn fagna of ákaft er rétt að hinkra og sjá hvað kemur í staðinn. Það hefur ekki alltaf reynst vel fyrir almenna borgara að losa þá við harðstjóra. Það hefur heldur ekki gefist vel í sögulegu samhengi að styrkja trúarleg uppreisnaröfl í pólitísku skyni því þau hafa átt til að bíta fast í hönd þeirra sem fóðruðu þau.“
Kristinn telur allt benda til þess að þessar vendingar í Sýrlandi hafi verið eftir forskrift utanaðkomandi afla. „Nú hentar það Tyrklandi, Ísrael og Bandaríkjunum að sjá þennan gamla sprota al-Kaida taka völdin í Sýrlandi. Þó að Hayat Tahrir al-Sham (HTS) og leiðtogi samtakana, Abu Mohammed al-Julani, hafi lýst yfir fyrir mörgum árum að þau hafi rofið öll tengsl við al-Kaida ætti að fara varlega að slá því föstu að mildileg stjórn taki við í Sýrlandi. Líklegt er að þessi hraða atburðarás á liðnum dögum sé eftir forskrift þar sem lykilleikendur utan lands hafa lagt línur. Það kann jafnvel að vera að samningar um átakalok í Úkraínu fléttist þar inn sem og tilvistargrið Írans. Það kemur á daginn síðar hvað hangir á spýtunni,“ segir Kristinn og bætir við að lokum:
„Eitt virðist þó augljóst, Palestínumenn eru á fórnaraltarinu. Búið ykkur undir áróður þess efnis að í ljósi stöðugleika og heildarhagsmuna verði menn að líta í gegnum fingur sér við þjóðarmorð.“