„Það var verið að sprengja 18 manns í loft upp, bara í morgun. Aftur er það árás á skólabyggingu, sem gerð hefur verið árás á, ítrekað. Þessi skóli er flóttamannabúðir, þar er ekkert skólastarf, þetta er skólaskýli á vegum UNWRA og fólk hefur leitað þangað. Þetta fólk er búið að missa heimili sín, hefur verið hrakið margoft til og frá, er á stöðugum flótta undan sprengjuárásum. Það er ekki lófa stór blettur öruggur á Gaza. Það eina sem fólkið þar hefur er vonin um “að það verði ekki næst.“
Svo hljóða nýjustu fregnir frá Palestínu í frásögn Möggu Stínu, söngkonu og aktívista, sem eins og undanfarnar vikur, greinir frá nýjustu tíðindum frá botni Miðjarðarhafs, við Rauða borðið í kvöld. Enn koma þaðan einugis slæmar fréttir.
„Allir læknar sem hafa komið frá Gaza undanfarna mánuði, allir sem einn eru sammála um að þeir hafi aldrei nokkurn tímann upplifað á sínum starfsferli ástand eins og er á Gaza. Það er alveg sama hve mikla reynslu þeir hafa af því að starfa á hungursvæðum eða stríðshrjáðum svæðum. Eitt sem þeir nefna líka margir, og það er að þeir hafi ekki á undanförnum mánuðum hitt eina einustu manneskju á Gaza sem ekki er veik eða slösuð.“
Við Rauða borðið í kvöld mun Magga Stína segja okkur enn fleiri fréttir af þjóðarmorði Ísraelsmanna í Palestínu.