„Ég hef viljað trúa því að lögreglan á Íslandi sé að vinna fyrir fólkið í landinu en ekki einungis fyrir valdhafa landsins. Þótt það hafi verið erfitt síðustu mánuði þá er næstum öll mín trú farin eftir daginn í dag,“ segir Gunnhildur Þorkelsdóttir en hún var viðstödd þegar lögreglan beitti piparúða á fjölda manns í gær við Skuggasund í miðbæ Reykjavíkur. Þar hafi félagið Ísland-Palestína staðið fyrir friðsömum mótmælum.
Gunnhildur lýsir atvikinu í færslu á Facebook en hún segir viðbrögð lögreglu hafa komið verulega á óvart. „Þetta byrjaði eins og öll önnur friðsæl mótmæli. Meira að segja horfði ég á eina lögguna geispa allnokkrum sinnum, svo leiðinlegt var þetta greinileg. Þegar fólk var að týnast heim, og greinilega ráðherrar líka, þá setur löggan (sem er búin að vera þarna róleg allan tímann) upp buffið sitt (eða hvað sem þetta kallast). Ég heyri smá læti ofar í götunni þar sem voru líka mótmælendur en ekkert af viti og veit ekkert hvað er í gangi þar. Og áður en ég veit af er löggan komin með spreybrúsa (ekki til að vökva blóm) sem hún miðar í átt að mér. Vanalega hefði ég nú spurt lögguna hvort þau vildu að fólk myndi færa sig frá. (enda heppin að vera hvít og ekki ógnandi í útliti, að ég hélt ) En andrúmsloftið og svipurinn varð strax þannig að ef ég myndi dirfast að segja eitt orð myndi hann sprauta á mig án aðvörunar,“ skrifar Gunnhildur.
Hún segist sjálf hafa verið að fara þegar ósköpin dundu yfir. „Ég var nú reyndar á leiðinni heim samt sem áður. Ég hafði bara reynt að mæta á milli þess sem ég fór með eldri á leikskólann og færi heim að hugsa um litla sem var veikur. Vildi mæta aðeins og sýna stuðning fyrir saklaus börn sem væri verið að drepa…. Mjög eðlilegt allt saman… […] Þremur sekúndum eftir að ég labbaði framhjá barni í kerru fékk ég piparský í hægra augað. Eða hvað sem það kallast þegar það er sprautað svo miklum piparúða að hann fýkur bara óstjórnlega útum allt,“ lýsir Gunnhildur.
Hún segir þetta atvik sýna að úrbóta sé þörf innan lögreglunnar. „En þetta er fullkomið dæmi um það sem maður er búinn að vera að sjá afhjúpast síðustu mánuði. Hverjir hafa völdin og hvernig þau láta okkur peðin í landinu sjá um að ráðast á hvort annað. Hvort sem það sé með orðum, handefli, eða bara hvers kyns ofbeldi yfir höfuð. Það þarf virkilega að taka til í kerfinu, þótt mun fyrr hefði mátt vera. Þetta er fyrir löngu orðið ógeðslegt. En kannski fólk sé meira til í að segja stopp þegar um ræðir hvítar íslenskar mæður sem mæta með börnin sín í fæðingarorlofinu… heldur en einstaklinga sem eru dekkri á hörund og tala jafnvel annað tungumál,“ segir Gunnhildur og bætir við lokum:
„Veit líka ekki hvort ég eigi að hlæja eða gráta þegar að ein konan dró upp bleyjur og blautþurrkur til að hjálpa nokkrum að þurrka piparúðann úr andlitinu. En ég held enn í vonina að við verðum ekki eins og í öðrum löndum. Nefni engin á nöfn. Því ég hef trú á máttinn í fólkinu og að það sé hægt að breyta þessari kerfislægu valdaníðslu sem er alltaf að koma bersýnilegri í ljós.“
Um myndina sem sjá má hér fyrir ofan segir Gunnhildur: „Læt enn eina myndina af Bergþóra Snæbjörnsdóttir fylgja þar sem hún varð oft fyrir barðinu á þessum óþekktarormum í dag. Ég horfði t.d. beint á hana þegar að það var sprautað beint í andlitið á henni þar sem hún stóð sakleysislega með fána og var líklegast að jafna sig eftir fyrri gusurnar sem hún fékk.“