„Ef í ljós kemur að Dagur hefur fengið full borgarstjóralaun greidd, ofan á laun formanns borgarráðs, lít ég það mjög alvarlegum augum. Ekki síst þar sem málið kom aldrei til kynningar í borgarráði og var laumað gegnum borgarstjórn í gagnapakka sem ekki var sérstaklega til umræðu né kynningar.“
Þessi ummæli hefur Mogginn í dag eftir Hildi Björnsdóttur, oddvita sjálfstæðismanna og ýjar með því að spillingu innan ráðhússins.
Í frétt blaðsins kemur fram að skiptin á borgarstjórum hafi kostað Reykjavíkurborg 25 milljónir króna. Sá kostnaður er að hluta óupplýstur samkvæmt blaðinu. Í frétt Moggans segir að auka hafi þurft við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar um 25 milljónir króna vegna borgarstjóraskipta í upphafi ársins. Það var gert í viðauka við fjárhagsáætlun um breytingar á „launa- og starfsmannakostnaði“, sem lagður var fram í borgarstjórn og samþykktur á þriðjudag.
Sjálfstæðismenn í borgarstjórn hafa óskað skýringa.
Þorsteinn Gunnarsson borgarritari segir borgastjóraskiptin ástæðuna eða „uppgjör í samræmi við ráðningarbréf fyrrverandi borgarstjóra og ráðningarsamning fv. aðstoðarmanns borgarstjóra“.
Aldrei var gerður ráðningarsamningur við Dag í stóli borgarstjóra.
Samstöðin sendi Degi fyrirspurn hvort rétt væri að hann hefði þegið tvöföld laun?
„Það er auðvitað rugl,“ svarar Dagur. „Á meðan ég nýt biðlauna þá vinn ég að segja má frítt eða launalaust sem formaður borgarráðs. Biðlaunin eru þannig í raun mismunurinn á launum formanns borgarráðs og borgarstjóra.“
Enn er þó ósvarað að nokkru hvað skýrir milljónirnar 25.