Íslendingar vilja ekki laxeldi í opnum sjókvíum. Mikill meirihluti almennings er harðlega andsnúinn sjókvíaeldi ef marka má nýja könnun Gallup. Mikill meirihluti vill banna fyrirbærið alfarið.
Könnunin var gerð að beiðni Íslenska náttúruverndarsjóðsins, en unnin samkvæmt vísindalegri aðferðafræði Gallup. Vísir segir frá niðurstöðunum.
Það helsta sem kemur í ljós er fjöldi þeirra sem er neikvæður í garð sjókvíaeldis, eða 65% svarenda og smæð þess hóps sem er jákvæður í garð fyrirbærisins, eða aðeins tæp 14%. Tæp 21% svara hvorki né. Þá hefur hlutfall þeirra sem segjast mjög neikvæðir í garð sjókvíaeldis vaxið gríðarlega, frá 14% af heildinni árið 2021 upp í 45,5% nú. Mjög jákvæðir eru aðeins 5,6% í dag.
Meðal þeirra sem voru jákvæðir í garð sjókvíaeldis kemur í ljós að langstærsta ástæðan fyrir þeirri tilfinningu er atvinnusköpun. 61,1% sögðu það vera helstu ástæðu jákvæðni sinnar. Aðeins 22,5% sögðu verðmætasköpun vera helstu ástæðuna.
Það er því ljóst að meira að segja meðal þeirra sem styðja sjókvíaeldi þá er ekki um að ræða stuðning við fyrirbærið sjálft, heldur að mestu við hugmyndina um atvinnnusköpun á landsbyggðinni. Það er það sem skiptir þau samfélög mestu máli.
Spurt var einnig um hvort banna eigi laxeldi í opnum sjókvíum eða leyfa það áfram og kom í ljós að tæp 60% vilja banna það alfarið. Aðeins 18% vilja leyfa það áfram.
Stjórnmálafólk þyrfti varla hugrekki með slíkar tölur í farteskinu, því gríðarmikið fylgi er fyrir því að banna starfsemina alfarið. Þó er ljóst að í íslenska stjórnmálakerfinu mun það þarfnast töluverðs pólitísks hugrekkis að ganga gegn sér- og eiginhagsmunum auðjöfra sem reka sjókvíar. Þessar tölur ættu þó að geta blásið jafnvel huglausasta stjórnmálamanninum eldmóð í brjóst sér. Spurningin er hvort Alþingi tekur til greina þennan skýra almannavilja þegar þing kemur saman að nýju í haust.
Könnunina má finna hér: