Bæjarstjóri segir ekki tímabært að halda íbúakosningu – „Þeir þurfa að sannfæra okkur um að þetta sé hættulaust“

Áfram fjölgar í hópi fólks á undirskriftalista gegn verkefni Carbfix, Coda Terminal, í Hafnarfirði. Nú stendur talan í rúmum 5100 manns. Yfirlýsing undirskriftalistans mótmælir staðsetningu borteiga Carbfix, sem haldið er fram að sé of nærri íbúabyggð og óvissa ríki um afleiðingar og árangur. Krafist er þess að fallið sé frá áætlunum eða hið minnsta að bæjarstjórn Hafnarfjarðar leggi málið í dóm bæjarbúa í kosningu.

Óánægðum bæjarbúum barst liðsauki í gær frá bæjarfulltrúa Viðreisnar, Jóns Inga Hákonarsonar, sem hyggst leggja fram tillögu þess efnis að haldin verður íbúakosning um málið. Jón sagði málið vel til fallið í íbúakosningu og ekki væri því til fyrirstöðu.

Þessu er bæjarstjóri Hafnarfjarðar ósammála greinilega. Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri fyrir Sjálfstæðisflokkinn, sagði við RÚV í gær að það sé „ekki tímabært“ að boða til íbúakosningu. Það komi þó til greina, en bæinn „skorti upplýsingar“ um „fjárhagslegar forsendur“ verkefnisins áður en slíkt væri hægt.

Rósa hefur verið fremst í stafni fyrir verkefnið, hampað því og fagnað því ákaft en nú kveður nýtt hljóð í strokkinn. „Ég skil vel að umræða sem þessi fari af stað og það er margt sem er óútkljáð í þessu verkefni“, sagði hún við RÚV. Enn sé beðið eftir upplýsingagjöf frá Carbfix og „við erum orðin óþolinmóð að bíða eftir því að fá niðurstöðu í fjárhagslegu þættina“ og nefndi hún þar hluti eins og auðlindarentu, hafnargjöld og fleira.

Þá segist Rósa skilja áhyggjur bæjarbúa „að mörgu leyti“ og að bæði hún og bæjarbúar þurfi „betri svör við ýmsum tæknilegum atriðum“. Þá varpar hún ábyrgðinni á Carbfix. „Þeir þurfa að sannfæra okkur um að þetta sé hættulaust og á meðan þau skilaboð komast ekki skýrar til skila en raun ber vitni þá skilur maður að umræðan sé á þessum stað.“

Taka má þá skýrt fram að ákvörðunin um að hleypa verkefninu af stað var hennar og meirihluta bæjarstjórnarinnar sem hún leiðir. Rósa er því í annað hvort sek um að taka ákvörðun um verkefnið án þess að vita nægilega mikið um það sjálf, samkvæmt hennar eigin orðum, eða hún finnur pólitíska vindátt breytast og hikar því ekki við að kasta Carbfix fyrir ljónin til að hlífa sjálfri sér.

Samskiptafulltrúi Carbfix, Ólafur Elínarson, var dreginn til svara í fjölmiðlum í gær líka og sagði ekkert að óttast fyrir íbúa Hafnarfjarðar. Ólafur sagði verkefnið að engu leyti ólíkt fyrri verkefnum á Hellisheiði sem dæmi, nema það yrði mun stærra að skala í þetta sinn. Verkefnið snýst um að flytja inn 3 milljónir tonna af koltvíoxíði á ári frá alls kyns einkafyrirtækjum í Evrópu og binda það í jörðu nærri álverinu í Straumsvík með því að bora holur og dæla því niður í bergið.

Ólafur segir tæknina hafa reynst vel og það má vel vera. Hins vegar er það ljóst að einkafyrirtækinu sjálfu ætti ekki að vera treyst fyrir því að meta eigin hættuleysi, heldur þyrfti óháða úttekt á því. „Við myndum ekki gera tilraunir á svæði eins og þarna, sem er svona nálægt byggð nema við teldum það öruggt,“ sagði Ólafur við RÚV.

Við myndum aldrei leyfa áhættuviðskipti ef við teldum það ekki öruggt – hefðu bankarnir getað sagt fyrir Hrunið. Með því verður ekki sagt að Ólafur og Carbfix séu jafn óprúttnir og bankarnir, né það tvennt lagt að jöfnu, heldur einungis það að aðila sem á hagsmuni þar að gæta er ekki treystandi til að meta eigin hæfi eða öryggi. Sá vandi kom skýrt upp í klúðri ríkisstjórnarinnar með fyrirtækið Running Tide.

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri, virðist ekki sjá þann augljósa markaðsbrest og segir íbúakosningu í raun ekki mögulega fyrr en fyrirtækið skýri fjárhagslega þætti og nái að „eyða þeirri óvissu og sannfæra okkur öll um að þetta sé hættulaust“. Ábyrgðin er því í engu sveitarfélagsins, sem tók umrædda ákvörðun.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí