Merkilegt nokk hefur Íslandsbanki bæst í hóp þeirra sem telja ferðamannaiðnaðinn hafa neikvæð áhrif á samfélagið. Fækkun ferðamanna mun minnka spennu á vinnu- og íbúðamarkaði, samkvæmt hagfræðingum bankans.
Auðvitað segja hagfræðingar Íslandsbanka það ekki með berum orðum að ferðamannaiðnaðurinn sé skaðvaldur, en ráða má það úr orðum þeirra engu að síður. Jón Bjarki Berentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka segir í samantekt greiningar bankans á hagvaxtarspá sinni að fækkun ferðamanna sé vænst á næsta ári. Það geti sannarlega dregið úr þrýstingi á húsnæðismarkaði og spennu á vinnumarkaði.
Raunar er það ekki svo að ferðamönnum hafið fækkað enn í heildina, heldur hefur þeim fækkað miðað við mælingar í júní í fyrra. Það sem af er ári hefur ferðamönnum fjölgað um 1%. Greining Íslandsbanka gerði þó ráð fyrir 4% aukningu og því hefur bankinn breytt spá sinni hér með. Fækkun á háannatíma yfir sumarið gæti þýtt fækkun í lok ársins, þegar tölurnar eru taldar saman í heild sinni.
Mikið ber á afbókunum á hótelum, ef marka má harmakvein talsmanna ferðamannaiðnaðarins, sem boðað hafa undanfarið yfirvofandi hrun í ferðamannaiðnaði og heimtað markaðssetningu yfirvalda á íslenskum túrisma með skattpeningum almennings. Ríflega helmingur forsvarsmanna fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu sögðu þó horfur í rekstrinum vera sæmilegar út árið í könnun sem FHG lét gera nýverið. Aðeins þriðjungur taldi horfurnar slæmar. Það er því ekki svo að allir finni fyrir atvinnudrepandi fækkun, þó allir telja einhvern samdrátt hafa orðið.
Ferðamálastofa spáir því samt að ferðamönnum muni fækka um 2% miðað við síðasta ár, í lok ársins. Hagvaxtarspá Íslandsbanka tekur mið af þessu og hefur því lækkað spá sína úr 0,9% hagvexti niður í 0,4%.
Í greiningu bankans eru þá áðurnefnd atriði sem í kjölfar samdráttar í ferðamannaiðnaði ættu að létta á álagi á húsnæðismarkaðinn fyrst og fremst. Þá segja hagfræðingar bankans að fækkun ferðamanna gæti þar með leitt til hraðari stýrivaxtalækkana Seðlabankans fyrir vikið.
Það er augljóst hver skaðlegu áhrif ferðamannaiðnaðarins eru á húsnæðismarkaðinn. Skammtímaleiga til ferðamanna í formi AirBnB sem dæmi, gríðarleg fólksfjölgun vegna aðflutts vinnuafls og endalaus hótel byggð í stað íbúða, hefur allt gert það að verkum að aukningu í ferðamannaiðnaði fylgir jafnframt hækkanir leiguverða og fasteignaverða, aukinn skortur og aukin eftirspurn.
Það er þó fréttnæmt að hagfræðingar einna stóru bankanna taki undir þau sjónarmið, enda hefur lengi vel ríkt einhvers konar óformleg grafarþögn um skaðsemi ferðamannaiðnaðarins. Dásama ber ávallt hagvöxtinn og verðmætasköpun þó svo að lítið af því skili sér til almennings og í raun valdi þeim skaða á margvíslegan annan hátt, svo sem með auknum þrýstingi á húsnæðismarkaðinn.
Það er líka fréttnæmt að ekki bara segir greining Íslandsbanka að samdráttur í ferðamannaiðnaði gæti leitt á spennu, heldur gæti það líka hraðað stýrivaxtalækkunum, en gríðarháir stýrivextir hafa nú þegar mergsogið heimilin í landinu.