Heimilislæknar þyrftu að vera tvöfalt fleiri – gríðarleg fólksfjölgun knésetur kerfið

Mönnunarvandi í heilbrigðiskerfinu er ekki nýr af nálinni og liggur við að almenningur sé orðinn vanur slíkum fréttaflutningi. Það hryllir þó að heyra í heimilislæknum sem segja að ef ástandið og álagið ætti aðv vera eðlilegt þá þyrftu þeir að vera tvöfalt fleiri.

Þetta sagði Margrét Ólafía Tómasdóttir, formaður Félags íslenskra heimilislækna, við RÚV.

Heimilislæknar séu nú um 200 talsins en þyrftu að vera 400 til að létta á álagi. Ef þeir væru 400 myndi það samt þýða um 1200 sjúklinga per hvern heimilislækni, sem hljómar líka sem ógurleg tala. Það er því ekki skrítið að erfitt eða nær ómögulegt er orðið að finna sér heimilislækni undanfarið, ef hver slíkur læknir er að burðast með hátt í 2400 sjúklinga á sinni könnu.

Ein helsta ástæða þess að minnka þurfi álagið á lækna og heilbrigðisstarfsfólk, fyrir utan það eðlilega sem er mannúðarsjónarmið fyrir starfsfólkið sjálft, er það að mikið álag og undirmönnun þýðir það að æ fleiri læknar og heilbrigðisstarfsfólk flosnar upp úr störfum sínum, brennur hreinlega út og kerfið verið bara verra.

Það þýðir verri þjónusta, meiri biðtímar, auknar líkur á mistökum og svo framvegis.

Margrét segir marga heimilislækna mjög áhugasama um störf sín, en vegna álags séu margir nú þegar að þrýsta á hlutastörf.

Bent er á í umfjöllun RÚV að gríðarmikill tími lækna, allt að 60-70%, fari í skriffinnsku og Margrét segir það ljóst að kerfin sem unnið sé með séu bæði gömul orðin og þung. Létta mætti á læknum með nýjungum þar.

Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir húsnæði og aðstæður á heilsugæslunum einnig mikilvægt, en á mörgum stöðum er það úr sér gengið eða hreinlega þegar sprengt, margar stöðvar séu hreinlega alltof litlar orðnar í dag.

Sigríður kemur þar inn á áhugaverðan vinkil sem er þétting byggðar. Sem dæmi sé stutt síðan heilsugæslan í Hlíðunum flutti úr Drápuhlíð yfir í Skógarhlíð. Mikil þétting byggðar í nágrenninu, sem enn mun halda áfram, raunar heilt nýtt hverfi í Valshlíðunum sem risið hefur þar á undanförnum árum, hefur gert það að verkum að heilsugæslustöðin sé strax orðin sprengd.

Oft er talað um áhrif ferðamannaiðnaðarins á innviði landsins, en alltof sjaldan er farið nánar út í saumana á því hvað það þýðir í raun. Húsnæðismarkaðurinn er eins og svo oft áður í miðju hringiðunnar sem okkar helsta kvöl og pína, en ástæða þess að þétting byggðar varð að pólitísku fyrirbæri er fyrst og fremst vegna húsnæðisskorts. Auðvitað eru rök fyrir þéttingu sem varða umhverfisáhrif þess að byggja of dreift o.s.frv. En raunverulega ástæða þess að reynt er að byggja á hverjum einasta lausa reit og lóð sem til er innan borgarmarkanna, er vegna þess gífurlega skorts á húsnæði sem ríkir.

Hvers vegna er sá skortur? Auðvitað liggur vangeta yfirvalda til að byggja í takt við þróun þar til grundvallar, en sú þróun sem hefur valdið stakkaskiptum á íslensku samfélagi undanfarin rúman áratug, er ferðamannaiðnaðurinn. Sá iðnaður er með endemum mannaflafrekur og það hefur ekki farið framhjá neinum hinn mikli fjöldi aðfluttra sem komið hafa til landsins til að starfa í þeim iðnaði. Það kallar á stóraukið magn af húsnæði.

Stóraukið magn af íbúum og húsnæði kallar á fleiri lækna og heilbrigðisstarfsmenn, það kallar á fleiri leikskóla, fleiri skóla og alls kyns aðra innviði sem við höfum öll aðgang að en hugsum oft ekki um. Hvort sem er byggt sé þétt eða dreift, þá myndi þetta álag vera hið sama. Ef byggð væru stór ný hverfi í útjaðri borgarinnar eins og í Úlfársdal eða annars staðar þá myndi það þýða fleiri heilsugæslustöðvar, sem einnig þyrfti að manna.

Þannig er mál með vexti að ferðamannaiðnaðurinn legst eins og þungt hlass ofan á klár sem þegar ber of miklar byrðar. Í áratugi fyrir Hrun var samfélagið einkavætt og markaðsvætt þannig að markaðsaðilar eyðilögðu marga samfélagslega innviði og ekki var fjárfest í þeim af hinu opinbera til framtíðarinnar. Þá tók Hrunið við. Meira að segja vinstri öflin sem tóku við þurftu að skera heiftarlega niður til að taka til eftir fylliraftana sem eyðilögðu landið.

Síðan þá höfum við lifað í varanlegu eftirhrunsástandi sem aldrei hefur verið byggt upp að nýju. Hægristjórnir hafa trekk í trekk stjórnað landinu og gera enn. Ekkert hefur verið byggt. Ekkert hefur verið lagað eða fjárfest í heilbrigðiskerfinu, kerfi sem molað var að innan á frjálshyggjuárum Davíðs Oddssonar og var skorið inn að beini í kjölfar Hrunsins. Ferðamannaiðnaðinum var fagnað sem töfralausninni eftir Hrun og allar ríkisstjórnir hafa baðað sig í ljóma hagvaxtar og lágs atvinnuleysis sem þeim iðnaði fylgir. En enginn hefur hugsað um framtíðina.

Framtíðin er hér og hún þýðir heilbrigðiskerfi sem er þegar sprungið og heldur einungis áfram að hnigna. Hún þýðir húsnæðiskerfi sem rænir okkur meirihluta launanna og fyrirtækjaræði sem arðrænir restinni. Lengi getur vont versnað.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí