Undanfarin misseri hafa margir velt vöngum yfir því máttlausum viðbrögðum stjórnvalda við húsnæðiskrísunni. Þrátt fyrir að hagfræðingar hafi bent á að krísan sé megin ástæða verðbólgu á Íslandi, og snerti því alla en ekki bara leigjendur, þá hafa allar aðgerðir stjórnvalda hingað til verið svo máttlausar að öllum hlýtur að vera ljóst að þær leysa enga krísu. Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Leigjendasamtakanna, segir ekki lengur hægt að horfa fram hjá því stjórnvöld hljóta að hafa engan áhuga á að leysa vandann. Þetta á að vera svona, með öðrum orðum.
„Það er hræðilega komið fyrir fólki á leigumarkaði og ungu fólki sem vill hefja búskap í eigin húsnæði. Það er deginum ljósara að þetta samsæri stjórnvalda og auðvalds gegn þorra Íslendinga hefur haft og mun áfram hafa í för með sér langvinn og gríðarlega skaðleg áhrif á afdrif þeirra sem ekki tilheyra þessari eitruðu elítu. Stjórnmála og fjármagnselítan eirir engu í brjálæðislegri auðsöfnun og stjórnlausri fyrirlitningu gagnvart þeim sem skapa auðinn og snúa hjólum samfélagsins,“ segir Guðmundur Hrafn og deilir frétt Samstöðvarinnar frá því í gær þar sem greint var frá því að fasteignakaup á yfirverði séu að aukast á sama tíma og það hægir á íbúðauppbyggingu .
Guðmundur Hrafn segir að þó sumir telji sig hafa hag af þessu ástandi þá sé þetta á endanum sjálfseyðandi hegðun. „Rætur elítunnar vaxa svo og þrífast í frjósömum jarðvegi þess hluta íbúa landsins sem óttast ekkert meira en að þau sjálf eða afkomendur lendi í hryllingnum. En sorglegast er að þau flest munu einnig verða fórnarlömb þessarar sjálfseyðandi hegðunar.
Það er að sönnu uppi skapadægur fyrir samfélagsgerðina okkar. Ef ekki verið snúið ofan af þessu samsæri á húsnæðismarkaði af þrótti og ákveðni næsta misserið munu hinir trosnuðu þræðir samfélagssáttmálans gefa sig og annað af þessu tvennu eiga sér stað, harkaleg uppreisn leigjenda og ungs fólks eða varanleg umpólun á stöðu þriðjungs þjóðarinnar sem mun eyða ævi sinni í óöryggi og angist sem þrælar á galeiðu elítunnar,“ segir Guðmundur Hrafn.
Hann spyr hvort við Íslendingar viljumj í raun og veru hafa þetta svona. „Viljum við búa í slíku samfélagi? Voru fórnir, ósérhlífni og atorka formæðra okkar og feðra við samfélagsuppbyggingu eingöngu til að fámenn elíta, sem hefur slitið sig frá kjörum og örlögum almennings gnæfi yfir okkur og graðki í sig framlag okkar, þrá eftir betra lífi og félagslegu réttlæti? Svar mitt er einfalt, NEI!“
Að lokum segir Guðmundur Hrafn nauðsynlegt að bregðast hratt við þessu ástandi ella séum við að skila landinu til barna okkar í margfaltverra ástandi en við fengum það. „Við verðum að snú bökum saman, því valdið er hjá okkur en það kemur aðeins með samstöðu og trú. Við afhendum þessari elítu valdið yfir okkur með aðgerðarleysi, aðeins sú breyting mun færa valdið tilbaka og þá munu breytingarnar verða hraðar. Það mun valda tímabundnum óróa en ef við sleppum því munu börnin okkar þurfa að eiga við þessa óáran sem vex að styrk með degi hverjum. Ef verkefnið virðist óyfirstíganlegt núna þá bíður þeirra ólýsanlegur hryllingur. Eiga þau það skilið?,“ spyr Guðmundur Hrafn.