Það hefur ekki farið framhjá neinum ástandið á húsnæðismarkaði og fréttir síðustu daga eru allar nöturlegar í þeim efnum. Hlutfall fjárfesta í kaupum nýbyggðra íbúða er nú 90%, íbúðaverð hækka stöðugt á milli mánaða og leiguverð hækka fimmfalt á við verðbólguna, annan mánuðinn í röð. Nú birtast fleiri nöturlegar tölur í mánaðarlegri skýrslu HMS um húsnæðismarkaðinn.
Mikil aukning hefur orðið í kaupum á fasteignum á fyrstu fimm mánuðum ársins miðað við sama tíma í fyrra, en kaupsamningum hefur fjölgað um 2.500 stykki. Á sama tíma hafa íbúðaverð aldrei verið hærri, en meðalkaupverð allra íbúða á höfuðborgarsvæðinu eru 84,2 milljónir. Þar að auki seldust tæplega 20% íbúða á yfirverði samanborið við 10% sem HMS telur eiga að vera þegar eðlilegt ástand ríki.
Hagfræðingur Arion banka og fyrrverandi starfsmaður HMS, Kári S. Friðriksson, segir við RÚV að fagna beri aukningu í fyrstu kaupendum og dregur úr áhyggjum af aukningu hlutfalls fjárfesta, sem hann segir marga ekki vera hefðbundna fjárfesta heldur líka foreldra sem kaupi eignir handa börnum sínum. Hann bendlar einnig óhagnaðardrifin félög inn í þá tölu og kaup fasteignafélagsins Þórkötlu á eignum í Grindavík.
Þar eru augljóslega villandi framsetning sett fram því aukningin í hlutfalli fjárfesta er ekki bara í ár, heldur hefur það farið stigmagnandi undanfarin ár, enda um mjög skýra þróun að ræða, ekki staka atburði eins og Þórkötlu og Grindavík, eða óhagnaðardrifin félög sem eiga raunar mjög erfitt með að keppa við fjársterka fjárfesta.
Þá er ákveðin játning á hrikalegri stöðu í orðum hans þegar hann reynir að mála einhvern hluta fjárfesta upp sem hjálpsama foreldra. Það er augljóslega fólk sem á þegar eign og er að kaupa aðra í þessum tölum og þá oft fyrir börnin sín, en þar liggur hundurinn grafinn, því aðeins eignafólk og fjársterkir aðilar hafa orðið efni á fasteignakaupum. Börn hinna ríku hafa því mikil forréttindi á meðan að börn hinna fátæku húka á leigumarkaði, sem hækkar í verði á stigveldisvexti í mánuði hverjum.
Þar fyrir utan er auðvitað alls konar fólk að kaupa fasteignir sem er tekjuminna en auðmannsstéttir, enda full og ærin ástæða til að reyna allt til að flýja helsið á leigumarkaði. HMS tekur þó fram að kólnun í ferðamannaiðnaðinum „gæti“ dregið úr framboðsskorti á leigumarkaði, „þar sem ákveðin samkeppni ríkir á milli leigjenda og ferðamanna um mögulegar leiguíbúðir“, sem er afar sjaldgæf viðurkenning frá HMS á hinu mikla böli sem er skammtímaleiga til ferðamanna.
Í tölum HMS er þó enn önnur nöturleg staðreynd sem vert er að taka fram. Hægt hefur á uppbyggingu íbúðahúsnæðis á byggingamarkaði. Fullbúnum íbúðum hefur aðeins fjölgað um 3.096 síðustu tólf mánuði, en frá miðjum febrúar var fjöldi slíkra íbúða 3.446 síðustu tólf mánuði þar á undan.
Einnig kemur fram í tölunum að á fyrstu fimm mánuðum ársins hafi 138 fyrirtæki í byggingastarfsemi orðið gjaldþrota, sem er fækkun frá sama tímabili í fyrra en þá var talan 163. Eins og segir í skýrslu HMS þá eru báðar tölur samt ískyggilega og sögulega háar. Nýskráningum slíkra fyrirtækja hefur líka fækkað um 49 eða rúm 18% á milli ára.
Þannig að ekki nóg með það að íbúðaverði stórhækki umfram verðbólgu og leiguverðshækkanir margfaldist á við verðbólgu, að metfjöldi íbúða seljist á yfirverði og aldrei í sögunni hafi verið eins hátt hlutfall fjárfesta og fjármagnseigenda sem kaupenda nýbyggðra íbúða, þá skreppur íbúðabyggingamarkaður saman. Miðað við endalaus met sem slegin eru í verðlagi þá er líka ótrúlegt að svo mörg fyrirtæki skuli hafa orðið gjaldþrota, því braskið og arðsemin á byggingamarkaði er gríðarleg um þessar mundir. Eflaust rannsóknarefni fyrir skattayfirvöld og kjörna fulltrúa hvað búi þar að baki.