Árshækkun íbúðaverðs í sérbýli á höfuðborgarsvæðinu, miðað við sama tíma í fyrra, var 12,1 prósent. Þetta er umtalsverð hækkun umfram verðbólgu, sem var ríflega sex prósent á tímabilinu. Verð á íbúðum í fjölbýli hækkaði nokkuð minna en þó um 8,2 prósent.
Þetta kemur fram í nýbirtum tölum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Hækkun íbúðaverðs var minni á landsbyggðinni en þó umfram verðbólgu. Þar nam hækkun íbúðaverðs 7,2 prósentum. Verð á íbúðum í sérbýli hækkaði um tæplega sex prósent á meðan verð á íbúðum í fjölbýli hækkaði um rétt ríflega 11 prósent síðustu 12 mánuði.
„Á síðustu tólf mánuðum hefur íbúðaverð hækkað um 9,1 prósent, sem er rúmum þremur prósentustigum yfir verðbólgu. Raunverðshækkun vísitölu íbúðaverðs á ársgrundvelli nam 3,1 prósentum í júní, en til samanburðar hækkaði íbúðaverð um 2 prósent að raunvirði í maí og 0,3 prósent að raunvirði í apríl,“ segir í samantekt Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar.
Í vikunni var greint frá því að á þessu ári hafi 9 af hverjum 10 íbúðum verið keyptar af einhvers konar fjárfestum, en ekki af fólki sem hugðist búa í íbúðunum.