Á laugardag 13. júlí gerði Ísraelsher loftárásir á al-Mawasi flóttamannabúðirnar, sem urðu að minnsta kosti 90 manns að bana, þar á meðal konum og börnum, og 300 til viðbótar eru særðir (að sögn heilbrigðisyfirvalda á Gasa).
al-Mawasi flóttamannabúðirnar eru staðsettar vestur af borginni Khan Younis í suðurhluta Gasa, og hafa verið skilgreindar sem „öruggt svæði“ (safe zone) af stjórnvöldum í Ísrael. Samkvæmt Al Jazeera voru 80.000 flóttamenn komnir saman í tjaldbúðunum í al-Mawasi þegar árásin átti sér stað. Ísraelsher hafði fyrirskipað óbreyttum palestínskum borgurum sem flúðu frá borgunum Rafah og Khan Younis að leita skjóls í búðunum, sem hafa samt sem áður orðið fyrir mörgum loftárásum Ísraelshers.
Ráðamenn í Ísrael segja að árásin hafi beinst gegn tveimur háttsettum Hamas-liðum sem þeir vija meina að hafi verið að fela sig meðal óbreyttra borgara.
Fréttamiðillinn Mondoweiss lýsir árásinni á flóttamannabúðirnar réttilega sem fjöldamorði, og birtir lýsingar þeirra sem urðu vitni að árásinni.
Shaima Farwaneh, 16 ára palestínsk stúlka sem varð vitni að fjöldamorðunum, segir í viðtali við Mondoweiss:
Aflimaður fótur flaug yfir mig og ég sá sundurlimuð lík í nokkurra metra fjarlægð frá mér. Ég sá ungan strák sem hafði misst fæturna og skreið áfram öskrandi á höndunum. Sprengjuregnið hélt áfram, og skyndilega hvarf drengurinn. Ég sá hvernig hann hvarf fyrir framan augun á mér á meðan við hlupum í burtu.
82 ára gömul kona, Fawzia Sheikh Youssef, var stödd í flóttamannabúðunum þegar loftárásirnar áttu sér stað. Hún lifði af, eftir að hafa verið grafin í sandinn í sprengjuregninu. Hún segist aldrei hafa upplifað neitt þessu líkt áður á ævinni. Hún segir í viðtali við Mondoweiss að hún hafi áður verið á flótta í Nakba árið 1948 þegar hún var aðeins 6 ára gömul, að þá hafi hún komið til Khan Younis-svæðisins og gist þar með fjölskyldu sinni í tvö ár í tjaldi. Núna, 76 árum síðar, er hún að verða vitni að fjöldamorðum sem hún hefur ekki séð síðan í Nakba.
Talsmenn Ísraelshers segjast hafa varpað fimm 2.000 punda sprengjum á svokallað „Hamas compound“ í flóttamannabúðunum. Þetta eru risastórar sprengjur með eitt tonn af sprengiefni og valda mjög miklum skaða, eins og lýsingar vitna af atburðinum gefa til kynna, sérstaklega ef þeim er varpað á tjaldbúðir þar sem óbreyttir borgarar eru að leita sér skjóls.
Ísraelsmenn segja að með þessum árásum hafi þeir verið að reyna að ráða af dögum tvo háttsetta Hamas-liða, þá Muhammad Deif og Rafa’a Salameh.
Deif er talinn vera einn af helstu skipuleggjendum árásanna 7. október á Ísrael. Samkvæmt Reuters hefur hann þegar lifað af sjö fyrri tilraunir Ísraela til að verða honum að bana, þar á meðal árás árið 2014 sem drap eiginkonu hans, sjö mánaða gamlan son og þriggja ára dóttur.
Vegna ótal morðtilrauna er talið að Deif haldi sig neðanjarðar í þeim miklu neðanjarðargöngum sem Hamas hafa lagt undir Gasasvæðinu. Samkvæmt bandarísku leyniþjónustunni er stærstur hluti af þessum neðanjarðargöngum ennþá óskaddaður af Ísraelsher, þannig að Deif og æðsti yfirmaður Hamas, Yahya Sinwar, hafa greinilega nóg pláss til að fela sig neðanjarðar.
Þess vegna má setja spurningamerki við yfirlýsingar Ísrael um meint markmið með þessum loftárásum á al-Mawasi flóttamannabúðirnar, sem gerðu í raun lítið annað en að fremja fjöldamorð á óbreyttum borgurum.
Benjamín Netanjahú forsætisráðherra viðurkenndi það meirasegja á blaðamannafundi á laugardagskvöld að vita ekki hvort að árásin á al-Mawasi búðirnar hafi orðið Deif eða Salameh að bana. The Times of Israel greinir frá.
Netanjahú sagði að hann væri „ekki viss“ hvort að Deif og Salameh hefðu verið drepnir, en sagði að sprengjuárásin á búðirnar hafi samt sem áður verið „hagstæð fyrir Ísrael“.
„Bara tilraun til að drepa yfirmenn Hamas sendir ákveðinn skilaboð til umheimsins, skilaboð um að dagar Hamas eru taldir,“ sagði Netanjahú. „Og þetta er það sem ég mun gera í næstu viku þegar ég kem í heimsókn á bandaríska þingið. Ég mun flytja boðskap Ísraels til Bandaríkjanna og alls heimsins.“
Á sunnudag sagði einn æðsti hershöfðingi Ísraelshers, Herzi Halevi, einnig að það væri ekki víst hvort að Deif hafi verið drepinn í árásinni. „Það er enn of snemmt að álykta um niðurstöður árásarinnar, sem Hamas reynir að fela,“ sagði hann.
Ísraelsher staðfesti það aftur á móti á sunnudag að Rafa’a Salameh hafi verið drepinn í árásinni.
Ísrael gerir einnig loftárásir á Sýrland
Á sunnudag gerði Ísraelsher einnig loftárás á Damaskus í Sýrlandi, sem varð einum sýrlenskum hermanni að bana og særði þrjá til viðbótar, að sögn ríkismiðla í Sýrlandi.
Ísrael hefur gert ótal loftárásir á Sýrland árum saman, sem jukust verulega eftir 7. október. Ísraelsher tilkynnir sjaldan þessar árásir, en í þetta skiptið státaði Ísraelsher sig af loftárásinni á Damaskus síðasta sunnudag. Ein þekktasta árásin var þann 1. apríl þegar Ísrael sprengdi sendiráð Íran í Damaskus og varð írönskum herforingjum að bana, sem leiddi til verulegrar stigmögnunar milli Ísrael og Íran.
Þetta rennir stoðum undir þá kenningu að Ísrael er svokallað „rogue state“ sem skeytir engu um alþjóðalög, alþjóðlega sáttmála, eða um skoðanir alþjóðasamfélagsins á framferði sínu.