Netanjahú mættur í heimsókn til Bandaríkjanna, mun ávarpa Bandaríkjaþing – árásir Ísrael halda áfram á Gasa

Netanyahu-visit-to-US

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, mætti í gær (mánudag 22. júlí) í heimsókn til Bandaríkjanna. Á morgun (miðvikudag 24. júlí) mun hann ávarpa Bandaríkjaþing. Mótmæli hafa verið skipulögð. Þetta er fyrsta heimsókn hans erlendis frá því að átökin á Gasa brutust út 7. október. Einnig frá því að Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn í Haag fór fram á að gefin verði út handtökutilskipun á hendur Netanjahú fyrir morðherferðina á Gasa.

Heimsóknin gengur ekki alveg eins og ætlað var. Netanjahú var að vonast til að heimsókn hans yrði stærsta fréttin. En aðrir stórir og mikilvægir atburðir sem hafa nýlega gerst tröllríða fjölmiðlum um þessar stundir og hafa varpað skugga á þessa heimsókn hans, fréttir eins og morðtilræðið gegn Donald Trump, og að Joe Biden Bandaríkjaforseti dróg forsetaframboð sitt til baka á sunnudag (21. júlí) eftir að hafa greinst með COVID-19, og lýsti yfir stuðningi við Kamölu Harris.

Biden átti upphaflega að eiga fund með Netanjahú í dag (þriðjudag), en getur það ekki vegna þess að hann er í einangrun með COVID. Talið er að Biden muni funda með Netanjahú á fimmtudag (25. júlí). Harris varaforseti mun einnig eiga fund með honum sama dag. Harris er væntanlegur forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, en landsfundur flokksins þar sem frambjóðandinn verður útnefndur er haldin í ágúst.

Trump, frambjóðandi Repúblikanaflokksins, tilkynnti það einnig að hann muni funda með Netanjahú á föstudag. Ísraelskir fjölmiðlar hafa greint frá því að Netanjahú hafi óskað eftir fundi með Trump.

Það voru Repúblíkanar sem höfðu frumkvæði að því að bjóða Netanjahú í þessa heimsókn. Fjallað var um gríðarlegan stuðning Repúblikana við Ísrael og ítök Ísrael-lobbýisins í Repúblikanaflokknum í grein á Samstöðinni.

Netanjahú er sagður hafa skipulagt þessa heimsókn m.a. vegna þess að vinsældir hans hafa verið að hrynja heima fyrir, og þessi heimsókn á að vera tilraun til að sýna sig sem mikinn stjórnmálaskörung á alþjóðasviðinu.

Benjamín Netanjahú ávarpaði áður Bandaríkjaþing árið 2015. Ítök Ísrael í bandarískum stjórnmálum þykja vera óvenju mikil. Það er mjög sjaldgæft að erlendir þjóðarleiðtogar ávarpi þjóðþing annarra ríkja. Noam Chomsky sagði að með þessari heimsókn hafi Ísrael verið að skipta sér af kosningum í Bandaríkjunum og reyna að hafa áhrif á úrslit þeirra, en tilgangur heimsóknar Netanjahú var að grafa undan stefnu Obama sem var á þessum tíma að reyna að skrifa undir samning með Íran um kjarnorkumál.

Mótmæli hafa verið skipulögð

Nokkrir þingmenn Demókrata segjast ætla að sniðganga ræðu Netanjahú á Bandaríkjaþingi. Síðast þegar Netanjahú gerði slíkt sniðgengu 58 þingmenn Demókrata ræðu hans.

Mótmæli hafa verið skipulögð þar sem mótmælendur ætla að marséra í kringum þinghúsið í Washington og fara fram á að handtökutilskipun Alþjóðlega sakamáladómstólsins á hendur Netanjahú verði framfylgt.

Fjölskyldumeðlimir gíslanna á Gasa hafa einnig skipulagt mótmæli í National Mall almenningsgarðinum í Washington, sem hafa áður verið að mótmæla stefnu Netanjahú vegna þess að hann neitar að semja við Hamas um að láta gíslana lausa.

Árásir Ísrael á Gasa halda áfram

Á sama tíma og Netanjahú mætti til Bandaríkjanna á mánudag (22. júlí), gerði Ísraelsher enn aðra árás á borgina Khan Younis í suðurhluta Gasa, sem varð a.m.k. 70 Palestínumönnum að bana, að sögn heilbrigðisyfirvalda á Gasasvæðinu. Meðal þeirra látnu eru konur og börn.

Tveir gíslar Hamas drepnir

Sama dag (mánudag 22. júlí) staðfesti Ísraelsher að tveir gíslar Hamas á Gasa hafa verið drepnir. Ísraelsher viðurkennir að þeir hafi mögulega látist í loftárásum Ísraelshers og segir að það sé til rannsóknar.

Þetta eru þeir Yagev Buchshtav, 35 ára, og Alex Dancyg, 75 ára, sem voru handsamaðir af Hamas í „AlAqsa Flood“ aðgerðinni 7. október. Greint er frá því að þeir hafi látist fyrir nokkrum mánuðum síðar, en samkvæmt Al Jazeera tilkynnti Hamas um andlát þeirra í mars.

Alex Dancyg og Yagev Buchshtav

Samkvæmt The Times of Israel þýðir þetta að nú hafa 44 gíslar verið staðfestir látnir, af þeim 116 gíslum sem voru handsamaðir 7. október og eru ennþá á Gasasvæðinu. Langflestir ef ekki allir þeirra sem hafa látist, hafa verið drepnir í loftárásum Ísraelshers á Gasasvæðið.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí